„Átti ekki hæstvirtur fjármálaráðherra að tryggja hæsta verð fyrir hlutinn? Við megum ekki gleyma því að í þeirri greinargerð sem skilað var til þingnefnda var sérstaklega kveðið á um að hæsta verð væri ekki eina markmiðið með þessari sölu. Einnig bæri að tryggja heilbrigt, dreift og fjölbreytt eignarhald,“ sagði Katrín forsætsráðherra á Alþingi.
„Ekki er hægt að gera því skóna að það markmið hafi komið fram síðar þar sem þetta var reifað og þetta var líka reifað af hálfu þingnefndanna. Þar var líka rætt um þann afslátt sem var gefinn af verðinu og kom m.a. fram í áliti einhvers minnihlutans, í umræðu um þetta, og um þetta var spurt á vettvangi þingsins,“ sagði hún.
„Ég held að við getum ekki horft fram hjá því í fyrsta lagi að eignarhaldið átti að vera dreift og fjölbreytt. Það var eitt af markmiðum sölunnar. Verðið hefði getað verið hærra eins og bent er á og upplýsingarnar sem lagðar voru fram voru ekki fullnægjandi. Mér finnst það reyndar alvarlegt mál, en hér er um að ræða þá fagstofnun ríkisins sem á að sjá um eignarhald og sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Henni er ætlað að tryggja ákveðna armslengd frá stjórnmálunum þegar ákvarðanir eru teknar,“ sagði forsætisráðherra.
„Varð ég fyrir vonbrigðum með þessa framkvæmd? Já, það er margt í þessari skýrslu sem veldur mér verulegum vonbrigðum með framkvæmdina og mér finnst hún sýna að rík ástæða sé til að endurskoða allt þetta fyrirkomulag frá grunni eins og ég sagði hér í vor.