- Advertisement -

Kristrún nýtur mests trausts – Katrín ekki lengur í fyrsta sæti – Bjarni í vanda

Fimm prósent þeirra vilja frekar Ingu Sæland sem forsætisráðherra en sinn eigin formann.

Rúm fimmtán prósent kjósenda treysta Bjarna Benediktssyni best í stól forsætisráðherra. Það er nokkru minna en fylgi flokksins hans. Sjö prósent flokksfélaga Bjarna treysta Sigmundi Davíð betur en Bjarna og fimm prósent þeirra vilja frekar Ingu Sæland sem forsætisráðherra en sinn eigin formann. Bjarni nýur sama og einskis traust hjá kjósendum annarra flokka. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í dag.

Aldrei þessu vant nýtur Katrín Jakobsdóttir ekki mests trausts. Það gerir Kristrún Frostadóttir, nýr formaður Samfylkingarinnar.

Í Fréttablaðinu segir: „Katrín Jakobs­dóttir er ekki lengur sá stjórn­mála­leið­togi sem lands­menn treysta best. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents. Flestir lands­menn treysta Krist­rúnu Frosta­dóttur, for­manni Sam­fylkingarinnar, best allra formanna, eða 25,4 prósent þeirra sem tóku af­stöðu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Katrín hefur lengi verið lang­vin­sælasti stjórn­mála­leið­toginn. Í októ­ber í fyrra vildu 57,6 prósent hana sem for­sætis­ráð­herra sam­kvæmt könnun Maskínu, en enginn annar stjórn­mála­leið­togi náði 10 prósentum. Í könnun Prósents sem gerð var 14. til 17. nóvember mælist Katrín með 17, 5 prósent þegar spurt er: Hvaða for­manni ís­lenskra stjórn­mála­flokka treystir þú best?“

Í þriðja sæti er Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, með 15,4 prósent sem er nokkuð lægra en fylgi Sjálfstæðisflokksins

11,3 prósent lands­manna treysta Sigurði Inga Jóhanns­syni, for­manni Fram­sóknar­flokksins, best. Þar á eftir kemur Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, með 9,7 prósent, Hall­dóra Mogen­sen, þing­flokks­for­maður Pírata, með 8,9 prósent, Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, með 7 prósent og Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, rekur lestina með 4,6 prósent.

Fyrir utan yfir­gnæfandi stuðning innan Sam­fylkingarinnar nýtur Krist­rún tölu­verðs stuðnings úr öðrum flokkum. Til að mynda treysta 53 prósent kjós­enda Sósíal­ista­flokksins henni best, 23 prósent Við­reisnar­fólks, 16 prósent Pírata og 11 prósent Fram­sóknar­manna.

Katrín er enn sá for­maður sem nýtur mests stuðnings innan eigin flokks, 90 prósent kjós­enda VG treysta henni best. Katrín nýtur einnig stuðnings 15 prósenta Sjálf­stæðis­manna, 14 prósenta Sósíal­ista og 13 prósenta Fram­sóknar­manna.

72 prósent Sjálf­stæðis­manna treysta Bjarna best. Hann hefur nær engan stuðning út fyrir flokkinn, nema 7 prósent hjá kjós­endum Mið­flokksins.

Þá treysta 9 prósent Fram­sóknar­manna Þor­gerði Katrínu best, 7 prósent kjós­enda Flokks fólksins treysta Sig­mundi Davíð best og 5 prósent Sjálf­stæðis­manna treysta Ingu Sæ­land best.

Lítill munur er á trausti eftir kynjum nema hjá Katrínu. 23 prósent kvenna treysta henni best en 13 prósent karla. Krist­rún, Bjarni, Sigurður Ingi, Hall­dóra, Þor­gerður og Sig­mundur Davíð hafa öll litlu meiri stuðning karla en kvenna. Inga Sæ­land nýtur ör­lítið meiri kven­hylli.

Katrín er sá for­maður sem nýtur mests fylgis ungs fólks, það er 22 prósenta kjós­enda undir 25 ára aldri. Krist­rún Frosta­dóttir hefur hins vegar mestan stuðning hjá kjós­endum 55 ára og eldri, slétt 30 prósent.

Á lands­byggðinni treysta 18 prósent Sigurði Inga best en að­eins 8 prósent á höfuð­borgar­svæðinu. 13 prósent á höfuð­borgar­svæðinu treysta Hall­dóru í Pírötum best en að­eins 2 prósent lands­byggðar­fólks.

Könnunin var net­könnun, fram­kvæmd 14. til 17. nóvember. Úr­takið var 2.600 og svar­hlut­fallið 51,3 prósent.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: