Davíð fjallar um lekann á skýrslu ríkisendurskoðanda í leiðara dagsins. Hann lætur sem hann hafi fengið hland fyrir hjartað að skýrslunni hafi verið lekið. Segir meira að segja að virðingu Alþingis sé stefnt í voða.
„Því sá sem ekki virðir trúnað, honum verður ekki trúað fyrir neinu. Þar mun Alþingi allt gjalda fyrir sviksemi eins þingmanns, veikasta hlekksins í þinginu, og þannig er grafið undan trausti í þinginu og til Alþingis,“ segir í lok leiðaraskrifa Davíðs þennan daginn.
Ætli Alþingi hafi ekki áður fengið verri og kaldari gusur en þessa. Við munum hvernig Davíð og Halldór vanvirtu Alþingi fullkomlega þegar þeir tveir ákváðu að Ísland yrði í hópi þeirra þjóða sem stóðu að innrásinni í Írak. Sennilega mesta asnaprik íslenskra stjórnvalda.
Aftur í leiðarann: „Alþingi setur niður við þetta. Þingmaðurinn, sem lak, sýndi Alþingi óvirðingu og það er Alþingi en ekki hann, sem hefur vanvirðu af þessu heimskupari.“
Davíð kanntu annan?
-sme