Í leiðara Moggans segir meðal annars:
„Aðgerðasinnar ruddu sér braut inn á landssamráðsfund um aðgerðir gegn ofbeldi síðdegis á miðvikudag, brutu sér leið upp á sviðið, strengdu þar borða fyrir sviðið og hrópuðu í sífellu með gjallarhorni: „Brottvísanir eru ofbeldi!“
Á sviðinu voru fyrir forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og fleiri, en þangað voru þau komin til þess að taka þátt í pallborðsumræðu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þeim brá óneitanlega í brún þegar fundinum var hleypt upp, fundur um ofbeldi tekinn herskildi.
Aðgerðasinnarnir beittu ekki ofbeldi, en þeir beittu yfirgangi.“
„Fyrrnefndar aðgerðir voru ekki ofbeldisfullar. En þær voru ekki heldur friðsamlegar. Þar var engin tilraun gerð til þess að taka þátt í rökræðu um fundarefnið og raunar ekki heldur málstað aðgerðasinnanna. Markmiðið var það eitt að trufla fundinn og gera hróp að þeim sem þar voru.
Þessar aðferðir eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir næstum hundrað árum voru þetta einmitt aðferðirnar, sem nazistar og kommúnistar beittu, að ráðast inn á fundi andstæðinganna og hleypa þeim upp. Stundum með ömurlegum afleiðingum. Það gerðist líka á Íslandi, þó að það væri sem betur fer fátítt.“