Í fyrri hluta leiðara Moggans segir meðal annars:
Kröfugerð Eflingar hljóðar upp á krónutölusamninga, líkt og samið var um í síðustu kjarasamningum. Sú aðferð getur aldrei gengið til lengdar, af þeirri einföldu ástæðu að þeir sem eru ekki á lægstu töxtum sætta sig ekki við að munurinn á töxtunum fjari út. Þetta kann að hljóma ósanngjarnt í eyrum samninganefndar Eflingar, en allar líkur eru á að þetta sé veruleikinn sem við er að eiga.
Þá er tæpast hægt að ætla að kröfugerð sem gerir ráð fyrir 40-45% hækkun taxta á þremur árum sé sett fram í þeim tilgangi að ná árangri, jafnvel á sama tíma og gerð er krafa um margt annað, svo sem styttingu vinnuviku.
Í seinni hluta leiðarans segir:
Fyrir fáeinum vikum var ekki á vitorði flokksmanna að látið yrði sverfa til stáls um forystu flokksins. Ekkert virtist gefa ríkulegt tilefni til slíks, þar sem flokkurinn er í ríkisstjórn, og varasamt að rugga þeim bát þegar málefnasamningur liggur fyrir sem markar stefnuna til næstu ára. Hefðu áform um breytta forystu náð fram að ganga nú, hefði mátt ætla að nokkurt uppnám hefði getað orðið í ríkisstjórninni, jafnvel svo, að tilveru hennar hefði verið ógnað. Nýr formaður hefði vart setið drýgstan tíma í ríkisstjórn án þess að hafa megináhrif á stefnu hennar. Svo fór að formaður flokksins hélt velli með fylgi sem han n getur mjög vel unað við.