- Advertisement -

Ætlar Samfylkingin að berjast gegn Sólveigu Önnu og Ragnari Þór?

Þetta kemur fram á Samstöðinni:

Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, og Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar, voru báðar kjörnar í stjórn verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar, en nokkur umræða hafði verið í flokknum um hversu góð skipan ráðsins fyrr á árinu hafi verið fyrir Samfylkinguna, þar sem andstæðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og róttækari arms verkalýðshreyfingarinnar voru áberandi. Stjórnarkjörið nú sýnir að flokksþingið vill herða andstöðuna gegn Sólveigu og félögum.

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, fyrrum stjórnarmaður í VR og eitt sinn annar varaforseti Alþýðusambandsins, var einnig kjörin í stjórn verkalýðsmálaráðsins. Ingibjörg Ósk leiddi á sínum andstöðu gegn Ragnar Þór Ingólfssyni, formanni VR, árin eftir að hann var kjörinn fyrst.

Gylfi Þór Gíslason var formaður ráðsins og var endurkjörinn, þaulreyndur flokksmaður. Þá var Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, kjörinn aftur, en hann hefur líka verið áberandi í andstöðunni gegn þeim Sólveigu Önnu, Ragnari Þór og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fjórir af fimm stjórnarmönnum hafa því stillt sér upp gegn róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, þeim hluta sem í reynd leiðir stærsta hluta hennar. Með kjöri þessa fólks staðfestir Samfylkingin stöðu sína í átökunum innan hreyfingarinnar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti ASÍ, sat í stjórninni en gaf ekki kost á sér. Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar á Selfossi, bauð sig hins vegar fram til endurkjörs en náði ekki kjöri.

Kosning þeirra Agnieszku Ewu og Ólafar Helgu vekur athygli. Þær stóðu fyrir tillögu á þingi ASÍ að vísa öllum fulltrúum Eflingar af þinginu. Þessi tillaga setti í raun þingið upp í loft, sem leiddi til þess að því var frestað.

Kjörtímabil þeirra tveggja í stjórn Eflingar rennur út snemma á næsta ári og ólíklegt verður að teljast að þeim verði stillt fram á lista trúnaðarmannaráðs. Nú hafa þær fengið afgerandi stuðning frá Samfylkingunni og mögulega má búast við Samfylkingarlista til stjórnar Eflingar upp úr áramótum, lista sem stillt verður upp gegn Sólveigu Önnu.

Myndin er af þeim Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: