Hvalræði Vinstri grænna – svíkja eigin stefnumál – dæmigerð íslensk spilling?
Hér eru valdir kaflar úr fínni grein sem Ole Anton Bieltvedt skrifar í Fréttablað dagsins.
2009 setti Jón Bjarnason, þá sjávarútvegsráðherra, reglugerð nr. 489/2009, sem kvað m.a. á um það, að verka skyldi hval undir þaki, í lokuðu rými, til að tryggja hreinlæti við vinnslu og matvælaöryggi, en frá 1949 hafði þessi verkun farið fram úti, undir berum himni.
Jón setti þessa reglugerð bæði til að fyrirbyggja, að fuglar eða önnur óværa kæmust í matvælin og til að samræma okkar starfsramma í matvælaiðnaði matvælalöggjöf ESB, eins og okkur bar skylda til skv. EES-samningi.
Þrátt fyrir það ríkidæmi, sem Hvalur hf. byggði upp á síðustu öld, tímdi fyrirtækið aldrei að fjárfesta í vinnsluhúsi fyrir hvalina. Hefði þessi reglugerð Jóns Bjarnasonar því átt að stöðva veiðar og vinnslu Hvals hf.
Hvalur hf. virti hins vegar þessa reglugerð að vettugi í 8 ár, sýndi bara Matvælastofnun, sem átti að fylgja reglugerðinni eftir, fingurinn;:verkaði áfram hval, eins og var 70 árum áður.
2017 varð Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, og var þeim nöfnunum, Kristjáni Loftssyni í Hval og honum, greinilega vel til vina, því ráðherrann setti stuttu seinna nýja reglugerð, nr. 533/2018, þar sem verkun hvals var aftur leyfð úti, undir berum himni, eins og var 1949.
Einhver hefði kallað þetta dæmigerða íslenzka spillingu.
Svandís hefði, eftir sína valdatöku í sjávarútvegsráðuneytinu, ekki aðeins getað, heldur hefði henni borið, að ógilda spillingarreglugerð Kristjáns Þórs og virkja aftur alvörureglugerð Jóns Bjarnasonar, nr. 489/2009, en þar með hefði Kristján Loftsson neyðst til að hætta hvalveiðum.
Svandís heyktist hins vegar á, að taka þetta auðvelda og réttmæta skref, leiðrétta misgjörðir forvera síns og standa við yfirlýsta stefnu síns f lokks um að stöðva hvalveiðar.
Enn stóð því Kristján Loftsson uppi sem glaðhlakkalegur sigurvegari, en Vinstri grænir urðu enn að beygja sig niður í vanefndir og duft.
Öll þessi helztu strandríki SuðurAtlantshafs ákváðu því um 1990, að vinna að friðun hvala á ákveðnu hafsvæði í Suður-Atlantshafi, til að styðja við viðkomu og enduruppbyggingu hvalastofna, eftir gegndarlausa slátrun hvala þar. Þrátt fyrir fátækt og mikla matvælaþörf í þessum ríkjum, ákváðu þau, að láta það ganga fyrir, að mynda þetta griðasvæði fyrir hvali, af þeirri hugsun og hugsjón, að við verðum að reyna að endurreisa lífríki jarðar, sem við höfum gengið svo heiftarlega á
1998 lögðu Suður-Atlantshafsríkin, sem eru þau einu, sem eiga aðgang að Suður-Atlantshafi, raunverulega þau einu, sem hlut eiga að málinu, því önnur aðildarríki eru staðsett annars staðar á jörðinni, mörg víðs fjarri, fram tillögu um þetta griðasvæði á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, en náðu ekki tilskyldum þremur-fjórða-meirihluta.
Síðan hafa þau barizt fyrir griðasvæðinu, án árangurs, þó að allan tímann hafi verið mikill meirihluti innan ráðsins fyrir griðasvæðinu, en hvalveiðiríki, með Íslendinga fremsta í flokki, 10.000 km í burtu, hafa með lævísi, brögðum og lágkúru hindrað framgang vilja meirihlutans.
Nú, á dögunum, á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Portoroz/Slóveníu, endurtók þessi ljóti leikur sig. Íslenzka sendinefndin, sem Svandís Svavarsdóttir ætti að hafa skipað, ásamt með 14 öðrum sendinefndum, mest smáríkja, sem ég hef sjaldan heyrt eða séð, og ríkja, sem eru víðs fjarri Suður-Atlantshafi, og ættu ekkert að hafa um málið að segja, gengu af fundi til að fyrirbyggja, að hægt væri að greiða atkvæði um málið.
Við svona atkvæðagreiðslu þarf helmingur aðildarríkja að vera viðstaddur, til að fundurinn sé ályktunarhæfur. Með því að ganga af fundi, komu þessi 15 ríki því í veg fyrir að hægt væri að taka málið til atkvæðagreiðslu.
Ómerkilegt og ólýðræðislegt trikk það, og svo leyfir matvælaráðherra sér að senda fjölmiðlum tilkynningu um, að íslenzka sendinefndin hafi gengið af fundi, því hún hafi talið, að ólýðræðislegt hefði verið að halda atkvæðagreiðsluna.
Ótrúleg tilraun ráðherra til að afsaka málið, vegna þess, að íslenzka sendinefndin hefur leikið þennan leik áður, þegar hún óttaðist, að griðasvæðið yrði samþykkt, t.a.m. 2011, en sá ótti var greinilega líka til staðar nú.
2012 studdu 38 ríki, öll aðal ríkin, sem eiga hlut að máli, tillöguna, gegn 21 ríki. 2018 studdu 39 ríki tillöguna, gegn 25. Hér hefur því minni hluti ríkja, mikið undir forystu Íslands, beitt meirihlutann yfirgangi og of beldi um áratuga skeið. Hafa grunsemdir um mútur verið uppi. Er því með ólíkindum, að matvælaráðherra skuli leyfa sér að halda því fram, að Ísland sé að reyna að koma í veg fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð.
Rúsínan í pylsuendanum er svo sú, að Svandís Svavarsdóttir, VG, hefur greinilega skipað alræmdasta hvaladrápara heims, Kristján Loftsson, í íslenzku sendinefndina, og ber hún skýr merki þess.