- Advertisement -

Efingarfólk er ómissandi

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Við erum sannfærð um að lykillinn að góðum árangri í efnahagslegri réttlætisbaráttu vinnuaflsins sé þátttaka á vettvöngum félagsins.

Eitt af því sem andstæðingar okkar sem fengum umboð í lýðræðislegum kosningum til að stýra Eflingu halda fram aftur og aftur er að allt sé í volli hjá félaginu. M.a. hélt Ólöf Helga Adolfsdóttir þessu fram í kosningabaráttu sinni til embættis forseta Alþýðusambandsins (öll hennar barátta gegn Ragnari Þór snerist reyndar um hvað ég væri agalega agaleg). Staðreyndin er sú að ekkert er fjarri sannleikanum. Hjá Eflingu er nú rekið öflugt og árangursríkt starf. Við höldum áfram að þróa nýjar leiðir í rekstri skrifstofunnar og í því sem mikilvægast er, að ná til og virkja félagsfólk, raunverulega eigendur Eflingar til þátttöku í starfi félagsins. Við erum sannfærð um að lykillinn að góðum árangri í efnahagslegri réttlætisbaráttu vinnuaflsins sé þátttaka á vettvöngum félagsins, hverjir sem þeir eru, og að öll sem tilheyra Eflingu, sama hvaðan þau koma, eigi að hafa tækifæri til að taka þátt í starfinu. 

Við höfum frá árinu 2018 verið brautryðjendur í verkalýðshreyfingunni við að opna starf félagsins fyrir aðfluttu verkafólki. Við höfum auðvitað aldrei fengið nokkra viðurkenningu né hrós fyrir atorkusemi okkar þar; þvert á móti hefur á síðustu mánuðum verið látið eins og nákvæmlega hið öfuga sé satt. Það er auðvitað þreytandi að sitja undir slíkum ömurðar-áróðri en við látum þó ekki deigan síga, enda er fátt mikilvægara en að tryggja að alþjóðlegt og þjóðlegt verkafólk geti sameinast á vettvangi baráttunnar og sótt fram í krafti samstöðunnar. 

Við Eflingar-fólk bíðum nú spennt eftir því að fá endanlegar niðurstöður kjarakönnunar okkar í hendurnar því að þær verða okkur afskaplega mikilvægar í komandi kjarabaráttu. Á meðan að við bíðum gleðjumst við innilega yfir því að ekki aðeins var met slegið í þátttöku í könnunni (þrefalt fleiri en nokkru sinni tóku þátt, eða 4562 félagar) heldur voru okkar aðfluttu félagar einstaklega duglegir við að svara. Eflingar-fólk frá Filippseyjum, Tælandi, Víetnam, Litháen, Portúgal, Póllandi, Lettlandi og svo mætti áfram telja tók aðild sína að verkalýðsfélaginu Eflingu alvarlega eins og vera ber, og sýndi að það skildi að raddir þeirra og skoðanir verða að heyrast í komandi viðræðum. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég er stolt af því starfi sem við í Eflingu vinnum. Ég er stolt af þrautseigju okkar og því hversu staðráðin við erum að ná árangri í að tryggja að Efling verði mikilvægustu og sterkustu baráttusamtök verka og láglaunafólks á Íslandi. Stéttarvitund okkar og staðfesta hefur komið okkur í gegnum ótrúlegustu áskoranir, og við lærum stöðugt meira um hvað virkar og hvert við ætlum að stefna. Og ég er stolt af því að fá að gegna formennsku í félagi þar sem að saman kemur verkafólk sem talar ótal tungumál, sem kemur alls staðar að úr heiminum, hefur ólíkan bakgrunn og ólíkar skoðanir á hinu og þessu, en hefur ákveðið að standa saman í baráttunni fyrir betra lífi. Sama hvort við erum fædd hér eða hingað flutt vitum við að vinna okkar skapar hagvöxtinn og heldur uppi umönnunarkerfunum. Við erum ómissandi. Og við ætlum og munum fá viðurkenningu á því áður en þessi vetur er liðinn. Það er alveg á hreinu. 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: