- Advertisement -

Nota ósamanburðarhæfar verðbólgumælingar

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Mikið álag er á Seðlabankanum vegna peningastefnunnar og skal engan furða. Af 80 þjóðríkjum með sjálfstæðan gjaldmiðil og undir 2 milljónir íbúa eru 77 með einhvers konar festingu við aðra gjaldmiðla, en aðeins EITT með fljótandi mynt og verðbólgumarkmið, þ.e. Ísland. Þessu hélt a.m.k. Þorsteinn Víglundsson fram fyrir 5 árum á fundi í Háskólabíói.

Þegar núverandi peningastefna var tekin upp árið 2001, var það gert í kjölfar þess, að Seðlabankinn hafði pantað álit frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og birti það í Peningamálum 2001/1. Áður höfðu þrír af hagfræðingum bankans, þ.e. Arnór Sighvatsson, Már Guðmundsson og Þórarinn G. Pétursson, nokkrum sinnum, einir eða í samfloti við félaga sína, birt greinar, þar sem ágæti peningastefnu með fljótandi mynt og verðbólgumarkmiðum var mærð. Velta þeir þessu m.a. fyrir sér í skýrslunni „Optimal exchange rate policy: the case of Iceland“ sem Seðlabankinn gaf út í maí 2000.

Þórarinn var auk þess höfundur greinarinnar „Gengis- eða verðbólgumarkmið við stjórn peningamála?“ sem birt var í Peningamálum 2000/1. Það fjallar hann m.a. um erfiðleika tengdu fjármagnsstreymi vegna aukins frelsis í fjármagnsviðskiptum milli landa og hve erfitt er að viðhalda fastgengisstefnu undir þeim kringumstæðum. Fjallar hann í grein sinni um upptöku verðbólgumarkmiða, en einblínir á að gagnsæi aðgerða Seðlabankans. Í greininni „Nýjar áherslur í starfsemi seðlabanka: aukið sjálfstæði, gagnsæi og reikningsskil aðgerða“ (Peningamál 2000/4), þá minnist hann á beitingu peningalegra stjórntækja og fái Seðlabankinn fullt sjálfstæði við beitingu þeirra eigi að vera hægt að tryggja langtímaávinning stöðugs verðlags.

Menn hefðu viljað gera þetta fyrr!

Í framhaldi af þessu var lögum um Seðlabanka Íslands breytt árið 2001. Meginmarkmið bankans urðu að stuðla að stöðugu verðlagi og hann fékk fullt sjálfstæði við beitingu stýritækja. Már Guðmundsson sagði í skýrslugjöf til Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) að þetta hafi ekki verið gert við kjöraðstæður (bindi 1, kafli 4, bls. 130-1). Menn hefðu viljað gera þetta fyrr! (Staðfestir að álit AGS sem birtist í Peningamálum 2001/1 hafi verið pantað.)

(Höfum í huga, að Þórarinn var þá deildarstjóri hjá Seðlabankanum en er núna aðalhagfræðingur.)

Í ljósi þessa, að Þórarinn virtist hafa rannsakað þessi mál betur en flestir aðrir innan Seðlabankans, eru orð hans í skýrslugjöf til RNA, sem koma fram í Skýrslunni athygliverð. En þar sagði hann, að upptaka verðbólgumarkmiða hafi verið til að koma í veg fyrir að bankinn yrði hrakinn út í að verja fastgengisstefnuna. Ekki hefði þó verið hægt að taka upp verðbólgumark fyrr, „vegna þess að við höfðum ekki nógu þróað fjármálakerfi“ (bindi 1, kafli 4, bls. 131), eins og einhver breyting hefði orðið á þroska fjármálakerfisins á fyrri hluta árs 2001! Staðreyndin er, að ekkert í þróun fjármálakerfisins mælti með upptöku verðbólgumarkmiða árið 2001, annað en að menn óttuðust spákaupmenn, eins og þeir gætu ekki stundað sína háttsemi undir verðbólgumarkmiðum. Nokkuð sem heldur betur átti eftir að koma í ljós og flestir voru þessi „spákaupmenn“ hjá þremur íslenskum bönkum, þ.e. Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands.

En það sem alltaf hefur vakið mesta athygli mína í skýrslugjöf Þórarins til RNA, eru þau orð hans, að líklega hafi bankinn ekki rannsakað hvaða stjórntæki hann gæti notað með verðbólgumarkmiðum. Þegar haft er í huga, að þrír hagfræðingar við bankann mæltu með upptöku verðbólgumarkmiðanna og þeir hafa samfellt verið aðalhagfræðingar bankans, hver á eftir öðrum frá því á síðustu öld, þá hefði maður haldið, að þeir hefðu kynnt sér framkvæmd verðbólgumarkmiða, en ekki bara hvernig þau virkuðu líklegast samkvæmt fræðunum. Þeir virðast heldur ekki hafa rannsakað hugsanleg áhrif verðbólgumarkmiða í litlu hagkerfi með sjálfstæða mynt, enda var enga slíka fyrirmynd að finna í heiminum og raunar voru frekar fáar þjóðir yfirhöfuð að reka peningastefnu sína með verðbólgumarkmiðum þar sem mynt þjóðarinnar var algjörlega ótengd einhverri annarri. Þórarinn má eiga það, að hann viðurkenndi þessa brotalöm í vinnu þeirra félaga, en kom með þá aumu afsökun, að það hefði ekki verið á hans könnu! Hvernig getur hann komið með ráðgjöf og hvatningu um upptöku verðbólgumarkmiða, ef hann veit ekkert um framkvæmd slíkrar peningastefnu? Ég efast stórlega um, að hann hefði fengið greinar sínar birtar, þar sem alvöru ritrýni hefði verið krafist.

Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson og Þóarinn G. Pétursson.

Eitt atriði er rétt að benda á úr rannsóknum Þórarins, sem hann birtir í greininni „Miðlunarferli peningastefnunnar“ (Peningamála 2001/4), en það er, að talið er að áhrif stýrivaxtabreytinga á verðbólgu skili sér að jafnaði á einu til einu og hálfu ári. Spurningin er hvort núverandi seðlabankastjóri og núverandi aðalhagfræðingur séu með þetta á hreinu og það skorti meiri framsýni í hjá bankanum við ákvörðun vaxtanna?

En hvers vegna er ég að skrifa um þetta, einn ganginn enn? Jú, vegna þess, að einn ganginn enn, er eins og stjórnendur Seðlabankans hafi ekki nægilega þekkingu á þeim stjórntækjum sem hægt er að nota til að styðja við vaxtaákvarðanir og peningastefnuna. Enn einu sinni eru gerðar vaxtabreytingar sem taka ekki tilliti til þess, að áhrif vaxtabreytinga á verðbólgu skilar sér líklega ekki fyrr en að einu til einu og hálfuári liðnu. Enn einu sinni er gerðar breytingar á vöxtunum án þess að búast við að vaxtabreytingar frá því fyrr á árinu séu farnar að bíta, eins og það sé bara sú síðasta sem bítur. Enn einu sinni er Seðlabankinn að ráðast á eða nýta sér innfluttar verðlagsbreytingar, eins og vaxtabreytingar á Íslandi hafi þar einhver áhrif. Og enn einu sinni er Seðlabankinn að nýta sér verðbólgumælingu, sem er ekki samanburðarhæf við mælingar í samkeppnislöndum. Nóg í efnahag þjóðarinnar er óhagstætt íslenskum fyrirtækjum og heimilum, þó ekki þurfi að leggja sérstakar álögur á fólk og fyrirtæki með því að nota ósamanburðarhæfar verðbólgumælingar.

https://www.facebook.com/coronavirus_info/?page_source=safety_efficacy_faxit&hoisted_module_type=covid_vaccine_development

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: