Mogginn og kjarabaráttan
Davíð Oddsson segir í leiðara að; …enda hafa Samtök atvinnulífsins talað fyrir hófsemd í samningagerð og bent á gríðarlega mikla kaupmáttaraukningu á undanförnum árum. Þá hefur launahlutfallið hækkað og hvort tveggja er þetta með því allra mesta sem þekkist.
Svo eru það götukrakkarnir ógurlegu:
Vandinn er þó sá að ýmsir í forystu verkalýðshreyfingarinnar gefa lítið fyrir slík sjónarmið og telja að samninga eigi að gera í efnahagslegu tómarúmi og án nokkurrar tengingar við veruleikann. Þeir telja í raun að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum sé ekki að tryggja sem best kjör umbjóðenda sinna og landsmanna allra, heldur að knýja í gegn sem mestar krónutöluhækkanir hverjar sem afleiðingarnar verði. Blásið er á að nokkurt samhengi sé á milli mikillar samningsbundinnar launahækkunar og verðbólgu, hvað þá vaxtahækkana seðlabanka.
En þó að fáeinir háværir forystumenn tali með óábyrgum hætti þá gera aðrir sér vitaskuld grein fyrir samhengi hlutanna og miklu skiptir að þeir sitji ekki hljóðir hjá. Almennir félagsmenn verkalýðsfélaganna og almenningur í heild sinni hefur mikilla hagsmuna að gæta í þessum efnum því að vaxandi verðbólga og hækkandi vextir gera ekkert annað en rýra lífskjör almennra launamanna, sama um hvað verður samið og hvort sem einstaka forystumenn viðurkenna það eða ekki.
Allt er eins og áður. Mogginn er sem héri fyrir launagreiðendur. Hleypur eins og óður sé, sem hann er kannski, og reynir að rægja sem best hann getur helsta forystufólk launafólks.
-sme