„Á tímum vaxandi ójöfnuðar er brýnt að þau sem eiga mest og hafa í mörgum tilvikum auðgast gríðarlega á undanförnum árum leggi aukinn skerf til samfélagsins og geri að lykilatriði að ábatanum af nýtingu náttúruauðlinda okkar sé dreift með sanngjarnari hætti.“
Þetta segir forsætisráðherra og hér er ég auðvitað ekki að tala um hæstvirtan forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, heldur forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu, á Alþingi í morgun.
„Þar í landi eru jafnaðarmenn við völd og þar ríkir einhver lágmarksskilningur á því hvað það er sem þarf til að reka sterkt velferðarkerfi, sterka almannaþjónustu. Auðlindagjöld upp á 33 milljarða norskra króna, sanngjarnir, hagkvæmir skattar á orkuframleiðslu, fiskeldi, auðlindarentu — það er sú leið sem Norðmenn ætla að fara til að draga úr þenslu, til að bæta afkomu ríkissjóðs og til að fjármagna velferðarkerfið, sterkara velferðarkerfi. Hér á Íslandi er farin sú leið að veikja velferðarkerfið og þær skattahækkanir sem hér er ráðist í leggjast þyngst á tekjulægstu hópana. Aðalhagfræðingur Evrópska seðlabankans, Philip Lane, hefur lagt til að ríkisstjórnir skattleggi frekar fjársterkustu hópana og stöndugustu og stærstu fyrirtækin; skapi þannig svigrúm í hagkerfinu til að styðja við fólkið sem þarf sannarlega á stuðningi að halda. Þetta er sú leið sem jafnaðarmenn í Noregi fara. Þetta er sú leið sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir og munum halda áfram að tala fyrir. Stórútgerðin er aflögufær. Ríkasta eina prósentið á Íslandi er aflögufært. Skattleggjum ofurtekjur, skattleggjum ofureignir og ofurarð og stöndum saman um sterkt velferðarkerfi og sterka almannaþjónustu,“ sagði Jóhann Páll.