- Advertisement -

Launin eru ákveðin út frá hagsmunum arðræningja

Sólveig Anna skrifar:

Að láta eins og fólk verði fórnarlömb skíthæla vegna þess að það talar ekki tungumál þjóðríkisins sem það dvelur í er barnalegt í besta falli.

Örlítið í viðbót um íslensku-uppþotið og stöðu vinnuaflsins.

“Haldið þið að ég fái hærri laun af því að ég tala íslensku?” Karla Esperanza Barralaga Ocon, Eflingar-kona og baráttujaxl.

Efling er stærsta félag verka og láglaunafólks á Íslandi. Félagið berst fyrir og hefur hollustu við sitt félagsfólk. Þau eru eigendur félagsins að öllu leiti. Fólk úr okkar röðum fetar sumt menntaveginn og færist þá yfir í önnur félög. En við sem gerum það ekki erum áfram Eflingar-félagar, og við höfum okkar eigin hagsmuni og kröfur. Þetta er auðvitað augljóst en mig langar samt að segja það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mér finnst þessi röksemdafærsla satt best að segja fyrir neðan allar hellur.

Við sem að tilheyrum stétt verka og láglaunafólks og tölum íslensku vitum að við fáum ekki hærri laun af því að við gerum það. Eflingar-konan sem að vinnur á leikskóla eða við öldrunar-þjónustu fær bara það borgað sem samið er um í kjarasamningum, sama hvað tungumál hún talar. Þegar að Eflingar-kona sem hefur lokið námi færist í annað félag og er ekki lengur Eflingar-kona kemur önnur Eflingar-kona í hennar stað, til að halda áfram við að framleiða hagvöxtinn eða axla byrðar umönnunarkerfisins. Laun hennar eru ekki ákveðin út frá því hvort að hún talar íslensku eða ekki. Laun hennar hafa verið ákveðin út frá hagsmunum arðræningja, samþykkt á forsendum stétta-andúðar þeirra betur settu, þeirra sem berjast fyrir stéttskiptingu og misskiptingu, berjast fyrir kúgun á öðru fólki. Við höfum barist og ætlum að berjast fyrir því að laun Eflingar-konunnar verði ákveðin út frá grundvallarmikilvægi hennar í samfélaginu, því að vinnuafl hennar er ómissandi. Sama hvaða tungumál hún talar.

Í íslensku-uppþotinu hefur sumt fólk haldið því fram að vinnandi fólk verði að tala íslensku vegna þess að annars sé alltaf verið að leika það grátt og stela af því launum. Þetta er í stíl við það sem að sumir, innan og utan hreyfingar vinnandi fólks, eru gjarnir á að segja; brotið er á aðfluttu verkafólki vegna þess að þekkir ekki réttindi sín, veit ekki að íslenskur vinnumarkaður er svo stútfullur af réttindum að hann er krúnudjásn allra vinnumarkaða sólkerfisins.

…vilja yfirstéttarinnar til að halda verka og láglaunafólki niðri svo að hægt sé að nota vinnuafl þeirra á niðursettu verði til að…

Mér finnst þessi röksemdafærsla satt best að segja fyrir neðan allar hellur. Hún er þolenda-smánandi og geranda-verndandi. Hún er sambærileg við hugmyndina um stutta pilsið á djamminu sem orsök kynferðisofbeldis. Ástæðan fyrir því að fólk verður fórnarlömb illrar meðferðar og launaþjófnaðar er ekki vegna þess að það tali ekki íslensku og þekki ekki dásemdir íslenska vinnumarkaðsmódelsins. Ástæðan er sú að menn sem eru að drepast úr græðgi hafa einbeittan brotavilja og leita allra leiða til að hámarka getu sína til að arðræna vinnuaflið. Ástæðan er sú að samtök atvinnurekenda hafa staðið í vegi fyrir því að ráðist verði í að uppræta brotastarfssemi og launaþjófnaði, og stjórnvöld hafa leyft þeim að afvegaleiða alla slíka vinnu. Þrátt fyrir loforð um annað. Vernda þarf atvinnufrelsi íslenskra kapítalista ofar öllu öðru.

Að láta eins og fólk verði fórnarlömb skíthæla vegna þess að það talar ekki tungumál þjóðríkisins sem það dvelur í er barnalegt í besta falli. Að láta eins og verkafólk sé arðrænt, jaðarsett, valdalaust vegna þess að það talar ekki íslensku á Íslandi, þýsku í Þýskalandi, ensku í Ameríku er yfirlýsing frá þeim sem að halda slíku fram um sögulegt þekkingarleysi, þekkingarleysi á kapítalismanum, þekkingarleysi á fortíðinni sem og samtíma okkar, og fáránlegt þekkingarleysi á einbeittum vilja yfirstéttarinnar til að halda verka og láglaunafólki niðri svo að hægt sé að nota vinnuafl þeirra á niðursettu verði til að moka undir eigin völd og viðurstyggilegan gróða.

Fólk ætti kannski að hugleiða eigin menntunarskort áður en fer að leggja okkur hinum ómenntuðu lífsreglurnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: