- Advertisement -

Felix um transfólk og kynsegin einstaklinga: „Hatrið í garð þeirra er yfirgengilegt og skömmin þeirra sem leiða þessa umræðu er mikil“

Leikarinn og fjöllistamaðurinn Felix Bergsson ritar áhrifamikinn pistil um trnasfólk og samkynhneigða og þá umræðu sem er í gangi nú varðandi fyrri hópinn, sem fer stækkandi:

„Þegar ég sé umræðuna sem skapast nú um transfólk í fjölmiðlum í kjölfar transfóbískrar afstöðu þeirra sem stjórna málum í sundheiminum, rifjast upp gamli kvíðinn sem ég upplifði alla tíð þegar málefni samkynhneigðra voru rædd. Sérstaklega áður en ég kom út úr skápnum,“ segir Felix og heldur áfram:

„Þetta var umræðan sem negldi okkur svo mörg inní skápinn, umræða byggð á hatri, vankunáttu og botnlausum fordómum. Sjálfskipaðir fræðingar ruddust fram og vissu allt um okkur „kynvillingana,“ og kynhegðan okkar; ástarlíf, meinta geðveiki, hvernig við smituðum hvert annað af óeðlilegum hugsunum, hvernig við plötuðum börn til fylgilags, hvernig við lögðumst á börn, hversu takmarkaðar lífslíkur okkar væru vegna ímyndaðrar kynhneigðar okkar, hvernig gvuð væri að refsa okkur, hvernig við gætum ekki verið fjölskylda og alið upp eðlileg börn og svo framvegis og svo framvegis.“

Felix nefnir að „homminn var ákveðin steríótýpa, lesbían önnur. Það átti að halda okkur frá íþróttastarfi. Það átti að halda okkur frá opinberum embættum. Helst átti að loka okkur inni, læsa og henda lyklinum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einnig að „ég finn innilega til með öllu hinsegin fólki og aðstandendum þeirra þegar svona stormur geysar. Sérstaklega hugsa ég til transfólks og kynsegin einstaklinga.

Hatrið í garð þeirra er gjörsamlega yfirgengilegt. Skorturinn á samkennd algjör. Skömmin þeirra sem leiða þessa umræðu er mikil. Þess vegna vil ég bara segja – munið að þið eruð ekki ein. Við erum miklu fleiri sem styðjum baráttu ykkar fyrir mannvirðingu og eðlilegu lífi á ykkar forsendum. Gefist ekki upp. Sækið ykkur stuðning og ljós. Við munum sigra að lokum.

Þessi stormur gengur yfir. Lifi ljósið.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: