- Advertisement -

Bríet búin að bíða í tæp tvö ár og ekkert gerist: „Hver dagur með röng kynfæri er tapaður dagur í lífi mínu“

Bríet Blær Jóhannsdóttir er transkona sem hefur mátt dúsa á biðlista eftir kynleiðréttingaraðferð í eitt og hálft ár. Hún segir líf sitt vera stopp þangað til aðgerðinni er lokið.

Bríet fékk að velja sér sitt eigið nafn; það var meira en að segja það.

„Þetta er í alvörunni svo erfitt, ég var að gera allar vinkonur mínar geðveikar,“ segir Bríet og bætir við:

„Ég fór í gegnum heilt ár þar sem ég lét alla kalla mig Blær, sem er millinafnið mitt. En það var einhvern veginn millistigssnafn fyrir mig. En ég veit ekki hvern ég hélt ég væri að plata.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nafnið Bríet varð fyrir valinu af nokkrum ástæður.

„Ég man bara að ég heyrði það og hugsaði: Ohh, þetta er svo fallegt nafn. Ég vildi að ég gæti heitið þetta. Svo áttaði ég mig á því að ég get heitið þetta, þetta getur alveg verið nafnið mitt. En svo er náttúrulega þessi augljósa og sterka tenging við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem mér þykir rosalega vænt um.“

Samt er önnur tenging sem stendur Bríeti enn nær hjarta.

„Það er að nafnið hljómar eins og Brie ostur og mér finnst hann mjög góður.“

Þrátt fyrir tengingu við baráttukonuna Bríeti Bjarnhéðinsdóttur hefur Bríet Blær ekki alltaf verið femínisti.

„Það er ekkert skrifað í stein en það fylgir því oft að alast upp eins og ég elst upp, með þessar tilfinningar, er að það kemur inn smá hatur á allt sem gerir mig öðruvísi. Ég var ekkert vond, ég hataði ekkert konur. En það var alltaf þessi togstreita.“

Bríet segist þó alltaf hafa verið snögg að stökkva á alls konar hatursvagna þegar vinsælt var að tala illa um ákveðnar konur; nefnir sem dæmi söngkonuna Britney Spears.

„Ég get ekki útskýrt það betur en að þetta hafi verið djúpt sjálfshatur sem var í gangi. En svo fatta ég hvað ég er, og það tók mig ótrúlega langan tíma að fatta það. Og eftir það breytist ég í raun og veru.“

Bríet fór að hugsa meira um réttindi kvenna; reyndi að átta sig á hvað olli hatrinu hjá henni.

„Það er í rauninni bara kvenfyrirlitning sem mér var kennd af umhverfinu mínu frá því að ég fæðist. Ég náttúrulega að tala um það að ég sé besti femínistinn því ég breyti mér í konu. Ég hef ekki séð neina femínista aðra en transkonur gera þetta.“

Bríet er nú í miðju kynleiðréttingarferli; hefur þurft að bíða eftir að komast í aðgerð frá í nóvember 2020.

„Ég hélt rosalega lengi að þetta væri bara Covid að kenna. Og ég sparkaði svo lengi í sjálfa mig; svo lengi yfir því að hafa ekki byrjað á þessu ferli fyrr. Hugsaði að ef ég hefði byrjað fyrir Covid, þegar ég áttaði mig á þessu, þá væri þetta allt löngu búið. Mér var sagt þegar ég fer og fæ að fara á biðlista að venjulega er biðtíminn eitt ár,“ en vegna Covid hafi biðtíminn lengst í tvö ár.

„En svo talaði ég við aðra stelpu sem beið í fjögur ár, fyrir Covid.“

Ferlið hjá Bríet hófst þannig að hún pantaði sér tíma hjá heimilislækni og fékk þaðan tíma hjá transteyminu.

„Þetta er ekki frábært, þetta er ekki geggjað ferli, þetta er ekki gaman. Ekki að það sé eitthvað niðrandi að það sé gefið í skyn að maður sé með geðsjúkdóm, það er ekkert slæmt að vera með geðsjúkdóm, það er hægt að vinna með því eins og öllu öðru. Og hvort að það sé undirliggjandi ástæðan fyrir því að mig langi til að gera þessa stóru breytingu á lífi mínu. Þetta er ekki gert til þess að vekja traust á ferlinu. Því þetta er í rauninni eina leiðin fyrir okkur til þess að fá það sem við viljum.“

Eftir að ferlið er hafið tekur við langur og mikill biðtími.

„Fyrir svona fimm árum var það þannig að maður þurfti að fara í tíma hjá geðlækni og tveimur öðrum læknum. Þá þurfti maður að lifa sem kona í heilt ár til þess að geta fengið að byrja á hormónum. Að gera þetta ekki þannig gerir fólki kleift að halda sér inni í skápnum fyrir sig og byrja svo á hormónum. Og koma út úr skápnum þegar þér líður eins og þú sért manneskjan sem þú vilt að fólk sjái.“

Bríet er þakklát fyrir þessar breytingar og nú sé þetta þannig að viðkomandi fer til þriggja mismunandi lækna, hittir hvern þeirra tvisvar. Eftir það getur liðið hátt í ár þangað til tími fæst hjá innkirtlalækni sem veitir hormónagjöf og lyf sem hindra framleiðslu líkamans á testósteróni.

„Og þaðan er maður þannig séð útskrifaður úr þessu; eða þannig upplifi ég þetta. Ég hef ekki heyrt píp frá transteyminu síðan þá. Og það var fyrir fimm hundruð og ég ætla að skjóta á áttatíu dögum núna.“

Bríet nefnir að hver dagur sem hún sé með röng kynfæri sé tapaður dagur í lífi hennar; líkir þessu við sís-kynja konur sem byrjuðu í réttum líkama með rétt kynfæri.

„Ég er 27 ára, að verða 28 ára, og ég er enn að bíða eftir að fá það sem aðrir fengu að byrja með. Líf mitt er í rauninni stopp þangað til ég fæ það. Ég get ekki gert neitt. Ég get ekki hætt í vinnunni, get ekki farið í skóla, get ekki flutt úr landi. Það er allt á pásu hjá mér og er búið að vera síðan ég áttaði mig á þessu þegar ég var 22 ára.“

Segir:

„Ég er rosalega þunglynd og það bara stemmir frá lífi mínu og hvernig ég hef þurft að lifa því. En húmorinn er í rauninni það sem bjargar mér. Og að gera grín að hlutum er hvernig ég kemst í gegnum það. Ef ég get ekki hlegið að lífinu mínu þá veit ég ekki hvað ég myndi gera,“ segir Bríet, sem hefur upplifað hatur fólks á transfólki.

„Ég veit alveg að það er rosalega mikið af fólki sem hatar transfólk af einni ástæðu eða annarri. Þetta er eins og með mig, þegar ég hataði konur. Hvort þetta sé eitthvað sem þau eru þá að reflecta á transfólk, að það þurfi alltaf að vera einhver vondi kall. En ég skulda þeim ekki að hlusta á þetta.“

Bríet segist ekki geta ferðast ein til útlanda vegna þess að það sé ekki öruggt fyrir hana, enda hafa á síðasta ári hatursglæpir gegn transfólki til dæmis í Skotlandi aukist um ein 80%.

Bríet segir að líf hennar sé í algerri biðstöðu og að hún hafi ekki gert mikið af því að fara á stefnumót.

„Ég set þann standard að mér verði að líða vel með sjálfa mig, og mér líður ekki vel með sjálfa mig fyrr en ég er búin að fá að komast í þessa aðgerð. Kannski finn ég einhvern ógeðslega yndislegan mann sem er bara alveg sama og þá er það bara geggjað.“

Bríet bendir á að aðgerðin sem hún er að reyna að komast í sé ekki flokkuð sem lífsnauðsynleg af mörgum sem þurfa hana ekki; segir stöðuna slæma hjá sér og öðrum sem þurfa að bíða og bíða:

„En þetta er það. Og ég hef heyrt frá svo mörgum að þær eru alveg að gefast upp. Þessi bið er að drepa fólk. Það er verið að drepa okkur með bið.“

Hún segir að vinur hennar hafi kallað biðlistann eftir aðgerðinni biðlistann sem styttir sig sjálfur.

„Sem er ógeðslegt en satt,“ því rannsóknir hafa sýnt að sjálfsvígshugsanir eru hærri á meðal transfólks en hjá öðru fólki.

Bríet segir að transferlið sé ævilangt; hún muni þurfa að taka lyf á hverjum degi; líkaminn muni halda áfram að taka breytingum út ævina.

„En þetta er eins nálægt því og ég get komist að setja slaufu á þetta, klára þetta. Að geta gert hluti eins og annað fólk; eins og að fara í sund, ganga um í þröngum buxum án þess að hafa áhyggjur af því að fólk sé að horfa á klofið á mér. Þessir sjálfsögðu hlutir sem fólk gerir,“ segir Bríet sem bíður með mikilli eftirvæntingu eftir símtalinu sem mun breyta lífi hennar varanlega.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: