- Advertisement -

Óþekktur gæi í fjármálaráðuneytinu

Katrín Jakobsdóttir bað Benedikt Jóhannesson, á þingfundi, um skýringar á orðum sem hann lét falla í Kastljósi í lok janúar, þar var rætt um málefni sem varðar peningaþvætti, aflandsfélög og skattundanskot.

Katrín las: „Nú ætlum við að taka á þessu af mikilli hörku, bæði með innanríkisráðuneytinu, við ætlum að vinna með skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, öllum skattstofnunum ríkisins. Ég held að það hafi kannski vantað svona pólitískan baráttumann fyrir þessu. Þetta hefur verið svolítið eins og þú kallar“ — og vitnar hæstvirtur ráðherra þar til Helga Seljans umsjónarmanns — „einhver gæi í fjármálaráðuneytinu sem var ekki nógu sniðugur. Það kannski vatnaði það að fjármálaráðherrann sjálfur segði: Heyrðu, við ætlum alveg að berjast fyrir þessu, við ætlum að segja þessari tegund af svindli stríð á hendur. Þá erum við bæði að tala um aflandsundanskotin og svarta hagkerfið og við verðum bara að berjast við það með öllum þeim ráðum sem við getum.“

Katrín sagði, að um leið og hún fagnar yfirlýsingu ráðherrans, um að þessi mál verði forgangsmál í ráðuneytinu, spurði hún:

„Má þá skilja orð hans sem svo að það hafi orðið veruleg stefnubreyting í ráðuneytinu við komu hans þangað? Til hvers er hann að vísa með þessum ummælum? Er hann þá að vísa til forvera síns í starfi sem nú gegnir embætti forsætisráðherra, að sá hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki verið pólitískur baráttumaður gegn skattundanskotum og aflandsfélögum?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Nei, það er ekki svo að ég hafi verið að vísa í hæstv. forsætisráðherra. Þetta er, eins og tilvitnunin bar með sér, orðalag sem ég gríp til á þessu stigi. Ég hef hins vegar sagt það að ég legg mikla áherslu á að berjast gegn skattaundanskotum, hvort sem það er í aflandsfélögum, í svarta hagkerfinu eða með öðrum leiðum,“ svaraði Benedikt.

Katrín sagðist hafa spurt ráðherrann út í orð hans, „…því að við gerum auðvitað ráð fyrir því að orðum fylgi ábyrgð, ekki síst þegar um æðstu embættismenn ríkisins er að ræða. Hæstv. ráðherra sagði það skýrt í þættinum að hann teldi að vantað hefði pólitískan baráttumann í fjármálaráðuneytið til þess að berjast gegn aflandsfélögum og skattundanskotum. Ég hlýt því að endurtaka spurningu mína: Telur hæstv. ráðherra að ekki hafi verið haldið nægjanlega vel á þessum málum á síðasta kjörtímabili? Til hvers er hann að vísa? Til hvaða ráðherra er hann að vísa þegar hann segir að það hafi ekki verið pólitískur baráttumaður í fjármálaráðuneytinu til þess að berjast gegn aflandsfélögum og skattundanskotum? Við hljótum að gera þá kröfu í ljósi þess að tíminn var búinn í viðtalinu þegar þessi orð féllu að hæstv. ráðherra útskýri hvað felst í þeim orðum.“

„Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmaður vill að ég reki sögu fjármálaráðherra. Forveri hennar í starfi var fjármálaráðherra hér um skeið og svo hafa ýmsir aðrir ágætir fjármálaráðherrar verið. Ég segi hins vegar: Það er staðreynd að svarta hagkerfið hefur stækkað á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að ráðast með öllum ráðum gegn því. Ég hef sagt að ég ætli að setja það í forgang hjá mér. Þó að ekki hafi öll heimsins vandamál verið leyst áður en ég kom þá stoppar það mig ekkert í því að fara í vegferð gegn þeirri meinsemd í samfélaginu,“ svaraði Benedikt, því upplýstist ekki hver ósniðugi gæinn í ráðuneytinu var.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: