Apabólan komin til Íslands! – Þórólfur: „Getum alveg búist við því að sjá hér fleiri tilfelli á næstunni“
Apabólan er komin til Íslands. Tveir íslenskir karlmenn greindust í gær og eru smitin rakin til ferðalags annars þeirra til Evrópu. Hvorugur er alvarlega veikur og báðir eru í einangrun. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir varar þjóðina við að smitunum muni fjölga á næstunni.
„Við erum búin að bíða eftir því og höfum talið mjög líklegt að hún myndi berast hingað ein sog hún hefur borist til annarra Evrópulanda. Þetta er bara það sem er að gerast núna. Ég held að við getum alveg búist við því að sjá hér fleiri tilfelli á næstunni, það kæmi mér alls ekki á óvart,“ segir Þórólfur í samtali við Vísi.
Þórólfur segist þó ekki eiga von á stórum faraldri apabólunnar hér á landi. Þetta eru ráð hans við því að smitast:
„Að fólk fari þá sérstaklega varlega í nánum kynnum við ókunnuga og sérstaklega á ferðum sínum erlendis. Þeir eru með þessi einkennandi einkenni; útbrot á húð og það er það sem við erum að vara við og vekja athygli á að ef fólk fær svona bólur og blöðrur á húð og sérstaklega á kynfærasvæðið þá á það að leita sér aðstoðar því það er í rauninni eina ráðið til að hefta útbreiðslu á þessu. Það er mikilvægt að fólk fái greiningu eins fljótt og hægt er.“