Helga opnar sig um ofbeldi eiginmannsins: „Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi upplifa svona mikla ógn og svona ofbeldi“
Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst, steig fram af hugrekki í gær og tjáði sig um ofbeldið sem hún þurfti að þola af hálfu eiginmannsins, Gísla Haukssonar, eins stofnenda sjóðstýringafélagsins GAMMA. Hann var í gær tæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotin gegn Helgu Kristínu.
Helga Kristín ritaði í gær færslu á Facebook þar sem hún tjáði sig um ofbeldið og tilfinningar eftir að dómurinn féll.
“Þá er þessu lokið” sagði dómarinn eftir uppkvaðningu dóms í dag. Það var í maí fyrir tveimur árum sem ráðist var á mig á heimili mínu og ég flúði berfætt með svefnpoka sem ég greip með mér. Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi upplifa svona mikla ógn og svona ofbeldi inni á heimili mínu og af hálfu manneskju sem ég treysti.
En í dag veit ég að þolandi hefur enga stjórn á ákvörðun annarra um að beita ofbeldi.Sömu nótt hringdi ég í Kvennaathvarfið og bað nánast um númeraðan lista yfir atriði sem ég yrði að gera til að tryggja að ég færi aldrei aftur þarna inn á heimilið. Ég fór að þeirra ráðum í einu og öllu sem gaf mér svo mikilvægar bjargir vikurnar á eftir. Þakklæti til þeirra verður alltaf til staðar. „Farðu beina leið á bráðamóttökuna. Áverkar þínar eru á því stigi að þeir gætu verið lífshættulegir”, sögðu þær.
Á bráðamóttöku fékk ég staðfestingu. Það var mér ótrúlega mikilvægt að fá viðurkenningu á því sem gerðist og viðurkenningu á ég var beitt ofbeldi. Líkamlegt ofbeldi skilur eftir merki og hefur áhrif á líðan í langan tíma. Það er því gaslýsing á hæsta stigi þegar gerandi ítrekað neitar sök. Í tvö heil ár. Að hann neitaði sök í allan þennan tíma gerði líðanina á þessum tíma margfalt verri.
Ákvörðunin um að kæra kom til mín einn dag þegar mér fannst ég geta loks dregið andann ofan í lungu og brosað með augunum. Haustið 2020 hringdi ég í gamlan kunningja, Arnar Þór Stefánsson, og bað hann um aðstoð við að kæra þetta ofbeldi til lögreglunnar. Kæruferlið er með því erfiðasta sem ég hef upplifað og á margan hátt upplifði ég eins og kæruferlið hjá lögreglu hafi gert ofbeldisupplifunina verri.
Ég er svo þakklát þeim konum sem börðust á undan mér fyrir því að skila skömminni. Það er þeim að þakka að ég finn ekki í dag fyrir skömm yfir því að það var ráðist á mig. En mig langar ekki að dvelja í því að þetta var lífreynsla sem ég bað ekki um og óska engum. Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað.
Í dag lýkur þessu ferli. Í dag var gerandinn sakfelldur eftir að hafa loksins játað brotið.Dómstóll hefur viðurkennt ofbeldið sem átti sér stað bakvið luktar dyr í maí 2020.Einu og hálfu ári frá kæru. Tveimur árum frá árás. Léttirinn við að þessu er lokið er ólýsanlegur. Það er bjart framundan enda á ég góða að.“