- Advertisement -

Formaður SGS kærði pólska verkakonu

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Já, var svar formannsins, þetta var nákvæmlega það sem hann hafði gert og gert það með sannri ánægju enda væri bannað að svindla á Íslandi.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Einn miðstjórnarfundur í miðjum Covid-faraldrinum er mér afskaplega minnisstæður. Umræður voru um „bótasvindlfyrirtækja;“ að ekki væru settar takmarkanir við arðgreiðslur fyrirtækja sem tækju við styrkjum úr ríkissjóði vegna tekjufalls og Covid-erfiðleika hagkerfisins. Brá þá svo við að þáverandi formaður SGS og formaður Einingar-Iðju kvað sér hljóðs. Hann sagði afskaplega stoltur frá því hvernig hann hefði sigað Vinnumálastofnun á pólska félagskonu sína, atvinnulausa, sem hafði framið þann „glæp“ að bregða sér stuttlega til heimalands síns. Það tók mig smá tíma að skilja hvað hann var að segja, heilinn minn átti einfaldlega erfitt með að fatta að orð sem þessi gætu verið látin falla við miðstjórnarborð sjálfs Alþýðusambands Íslands. Svo bað ég um orðið og spurði formanninn hvort ég væri að skilja rétt; hafði hann virkilega sigað Vinnumálastofnun á atvinnulausa félagskonu sína, verkakonu af pólskum uppruna, til þess að hún yrði svipt bótum fyrir að dirfast að fara í stuttan tíma til síns heimalands? Já, var svar formannsins, þetta var nákvæmlega það sem hann hafði gert og gert það með sannri ánægju enda væri bannað að svindla á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Mér fannst svo helsjúkt að sitja þarna í hópi vellaunaðra formanna og hálaunaðra sérfræðinga og hlusta á lýsingar á ömurlegri refsigleði gagnvart fátækri verkakonu, atvinnulausrar vegna heimsfaraldurs sem hafði nákvæmlega engin áhrif á launakjör þeirra sem viðstödd voru miðstjórnarfundinn.

Mér brá mjög við þessi orð formannsins. Og ekki síður brá mér við að sjá að ENGINN annar en ég á þessum miðstjórnarfundi gerði eina einustu athugasemd við orð formannsins. Enginn annar fulltrúi vinnandi fólks í miðstjórn Alþýðusambands Íslands sagði aukatekið orð um þessa ömurlegu aðför formanns að eigin félagskonu í þeim tilgangi hafa af henni þær atvinnuleysisbætur sem hún sannarlega hafi unnið sér réttinn á með því að knýja áfram hjól hins dásamlega íslenska vinnumarkaðar. Sérstaklega brá mér við að verða vitni að þögn forseta Alþýðusambandsins. Mér var svo misboðið að ég ætlaði að yfirgefa fundinn. Mér fannst svo helsjúkt að sitja þarna í hópi vellaunaðra formanna og hálaunaðra sérfræðinga og hlusta á lýsingar á ömurlegri refsigleði gagnvart fátækri verkakonu, atvinnulausrar vegna heimsfaraldurs sem hafði nákvæmlega engin áhrif á launakjör þeirra sem viðstödd voru miðstjórnarfundinn. En ég settist aftur niður og benti formanninum og öðrum viðstöddum á að nákvæmlega svona framferði og viðhorf væri ástæða þess að aðflutt verkafólk bæri lítið traust til hinnar „stórkostlegu“ íslensku verkalýðshreyfingar. Ég hvatti fólk til að endurskoða viðhorf sitt til vinnubragða þeirra sem þarna hafði verið lýst. Ekki veit ég hvað fólki fannst um þau orð sem ég lét falla vegna þess að enginn sagði eitt aukatekið orð. Ætli ég hafi ekki fengið á mig stimpilinn svindlara og svikara-vinur?

Mikið vildi ég að Halla Gunnarsdóttir sem var viðstödd þennan fund eða forseti ASÍ hefðu haft kjark til þess að benda umræddum formanni á hversu ömurlegt framferði hans var gagnvart pólsku konunni.

Mikið vildi ég að Halla Gunnarsdóttir sem var viðstödd þennan fund eða forseti ASÍ hefðu haft kjark til þess að benda umræddum formanni á hversu ömurlegt framferði hans var gagnvart pólsku konunni. Að taka þátt í því að svipta hana lífsviðurværinu og monta sig svo af því við miðstjórnarborð ASÍ. En þessum fundi var auðvitað í gildi ein mikilvægasta óskrifaða regla verkalýðshreyfingarinnar íslensku sem er þessi: Persónur skipta alltaf meira máli en málefni. Og þessvegna sögðu þær ekkert.

Halla (og forysta ASÍ) ætti kannski að taka til heima hjá sér áður en hún fer að ala fólk upp á Facebook. En ég skil að það er vissulegra auðveldara að skamma fólk á Facebook en finna kjarkinn í að skamma fína formenn hreyfingarinnar.

Og ef einhver ætlar að fara að ásaka mig um útlendingahatur eða eitthvað álíka fáránlegt má sá eða sú sama fyrst spyrja sig: Hvað hef ég gert í baráttunni fyrir raunverulegu fjölþjóðlegu samfélagi á þessu landi og hvað hefur sú sem ég ætla að brennimerkja sem útlendingahatara gert? En ég átta mig auðvitað á að fyrir mörg skiptir auðvitað engu máli hvort það sem ég er ásökuð um er á nokkurn hátt satt eða á allan hátt ósatt. Ef að boðið er upp á að ráðast á mig með ásökunum um útlendingafordóma, hversu augljóslega ósannar og óforskammaðar þær ásakanir eru, er það einfaldlega gert. Ásakanirnar verða svo einungis teknar sem dæmi um að „skoðanir séu skiptar“ á mér og mínum verkum. Og um það hljóta nú öll að gera verið sammála um.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: