Raunar hefur fjármálaráðherra gengið svo langt að kalla alla umræðu um þessa stóru viðhorfsbreytingu gagnvart aðild að ESB ósmekklega vegna stríðsástands í Evrópu…
„Það var áhugavert að heyra svar hæstvirtan forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær. Spurð að því hvort hún styddi að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið yrði haldin á þessu ári sagði hún sjálfsagt að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu en bara ef fyrir lægi augljós meiri hluti meðal þingmanna fyrir aðild að sambandinu. Þetta svar hæstvirts forsætisráðherra er uppsuða af aumri afsökun hæstvirts fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar fyrir því að hafa svikið loforð sem hann gaf kjósendum sínum um þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál fyrir kosningar 2013, þar sem hann talaði um pólitískan ómöguleika. Sá ómöguleiki fólst í því að hann og formaður Framsóknarflokksins voru á móti ESB-aðild og þar af leiðandi var ómögulegt að standa við gefin loforð og leyfa einhverju jafn ómerkilegu og þjóðarvilja að ráða för í þessu risavaxna hagsmunamáli allrar þjóðarinnar,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á þingi fyrr í dag.
„Svar hæstvirts forsætisráðherra í gær er sérstaklega áhugavert vegna þess að í fyrsta sinn í meira en áratug segjast fleiri fylgjandi aðild að Evrópusambandinu en eru andvígir. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar eru því þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu einungis nothæfar og framkvæmanlegar ef meiri hluti þjóðarinnar hefur sömu afstöðu og þau til þess sem spurt er um. Raunar hefur fjármálaráðherra gengið svo langt að kalla alla umræðu um þessa stóru viðhorfsbreytingu gagnvart aðild að ESB ósmekklega vegna stríðsástands í Evrópu og gerir þannig lítið úr auknum vilja kjósenda til að styrkja samstarf Íslands við önnur friðelskandi ríki í álfunni,“ sagði Þórhildur Sunna og sagði svo:
„Forseti. Við Píratar lítum svo á að þjóðin eigi rétt á að láta vilja sinn í ljós og þess vegna höfum við, í samvinnu við Samfylkingu og Viðreisn, lagt fram tillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB fyrir lok árs. Auðvitað þarf að efna til opinnar, fræðandi og málefnalegrar umræðu. Leiði sú afstaða í ljós að farið skuli af stað í aðildarviðræður skal það gert algerlega óháð því hvað einstökum þingmönnum eða flokkum finnst um þá afstöðu.“