„Heilbrigðiskerfið okkar er með þeim bestu í heimi,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson Framsókn á þingi í dag.
Inga Sæland hafði aðra sögu að segja:
„49 ára gamall karlmaður fékk heilablæðingu árið 2019, fullfrískur vinnandi maður með fjölskyldu og börn. Í dag hefur hann verið rúmt ár í hjólastól og gengist undir þrjár aðgerðir. Alls staðar kemur hann að lokuðum dyrum. Hann hefur engin búsetuúrræði fengið enn. Hann er fluttur inn til pabba síns, aldraðs manns sem getur ekki sinnt honum. Þetta er Ísland í dag, virðulegi forseti, algerlega lokað á hann, alls staðar keyrt á veggi. Hann skorar ekki nógu hátt í félagslega kerfinu. Hann fær bara sex stig af tíu og það er algjört lágmark. Ég velti fyrir mér: Hversu mörg stig skorar þú þegar þú ert orðinn ógangfær og kominn í hjólastól og getur ekki bjargað þér sjálfur? Svo er annað: Hann var með tæpar 7 millj. kr. í tekjur. Hann er líka of tekjuhár til að vera fatlaður, kominn í hjólastól og geta fengið eðlileg búsetuúrræði.
Gleðifréttirnar eru þær, virðulegi forseti, að síðar í dag munum við í Flokki fólksins mæla fyrir frumvarpi um löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ef sá samningur hefði verið löggiltur fyrr, eins og margítrekað hefur verið kallað eftir, væri alger ómöguleiki fyrir nokkur einustu stjórnvöld, hvort sem þau eru félagsleg eða stjórnvöldin hér á hinu háa Alþingi, að skella skollaeyrum við bænahrópi fatlaðra einstaklinga sem biðja okkur um hjálp. Við hljótum að fagna því að þetta mál, um löggildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, skuli koma á dagskrá í dag og að ég skuli mæla fyrir því í dag vegna þess að ríkisstjórnin hefur sjálf sagt að hún ætli nú sannarlega að taka utan um þennan samning á kjörtímabilinu. Kjörtímabilið er jú reyndar fjögur ár og það er, virðulegi forseti, ekki eftir neinu að bíða.“