- Advertisement -

Svandís ver skerðingar í strandveiði

„Útgangspunkturinn í okkar kerfi er alltaf sá að við förum ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það er sá stakkur sem við viljum skera okkur og sá útgangspunktur sem við viljum leggja út af, við sem erum þar stödd í ákvarðanatöku,“ sagði Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra á Alþingi.

„Þegar að því kemur að í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar dregst saman, í sumar sem leið, stend ég sem ráðherra málaflokksins frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um hámarksafla í þorski á þeim grunni. Þá höfðu þegar verið teknar aðrar ákvarðanir og ég kem sem sagt að því að taka þær ákvarðanir sem enn voru til á borðinu. Þá lækkaði hámarksafli í þorski um 13% og vegna þess að ég legg út frá vísindalegri ráðgjöf varð að breyta þeirri ráðstöfun. Það var ekki hægt að breyta ráðstöfun í skel- og rækjubótum og ekki heldur kvóta Byggðastofnunar þar sem þeim heimildum var úthlutað á skip við upphaf fiskveiðiársins í september síðastliðnum.“

„Það sem stóð eftir voru þeir þættir sem tekin var ákvörðun um að myndu þola skerðingar og það voru annars vegar strandveiðarnar og hins vegar byggðakvótinn,“ sagði Svandís og hélt áfram og sagði tl dæmis:.

„Rétt eins og fyrri ráðherrar í mínu embætti sem hafa komið frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, stend með því að strandveiðar eru afskaplega góð byggðaaðgerð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þórunn Sveinbjörnsdóttir sagði þá:

„Hún orðaði það sem svo að eina valið hefði verið að skerða þorskveiðiheimildir hjá þeim sem þola skerðingar. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála því að smábátasjómenn þoli skerðingarnar best og það kemur m.a. til af því hvernig reglurnar eru. Við erum með einn pott og mörg hólf og þorskurinn syndir sína leið vestur og norður fyrir landið að vori og sumri. Er ekki möguleiki að hæstv. ráðherra skoði það af fullri alvöru að breyta reglunum þannig að þegar kemur að hólfum fyrir norðan land eða svæðum fyrir norðan og austan land verði ekki komið fram á mitt sumar og heimildirnar uppurnar? Í því er engin sanngirni. Í því er engin byggðastefna. Það hlýtur að vera hægt að finna lausnir á því sem una má við og tryggja skynsamlega úthlutun á næsta sumri.“

Svandís kom aftur í ræðustól og sagði:

„Svo það sé sagt strax í byrjun var það óheppilegt orðalag hjá mér að tala um að þola skerðingar. Það var alls ekki mín meining heldur miklu frekar að ég stóð frammi fyrir því að þurfa að ganga í þetta þar sem það var yfir höfuð hægt, þar sem ekki var þegar búið að taka ákvarðanir sem ekki var hægt að taka til baka. Ráðstöfun aflamagns til strandveiða var því skert um 15% og til almenns byggðakvóta sveitarfélaga um 20%.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: