- Advertisement -

Pólitískir villikettir og pólitískir sauðir

Hjarðmennskan er það hættulegasta sem er til á Alþingi – og það á við í öllu jarðlífinu.

Í Mogga morgundagsins er að finna langt og fínt viðtal við Ögmund Jónasson. Hér að neðan er einn kafli viðtalsins. Í Mogganum segir:

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Ögmundur lét hrikta í stoðum í stjórnarráðinu. Frægt var þegar hann sagði af sér sem heilbrigðisráðherra vegna þess að hann aðhylltist ekki sömu lausn og forystumenn stjórnarflokkanna í Icesavemálinu. Við blasir að spyrja hvort krafan í ríkisstjórn og á Alþingi yfir höfuð sé að menn gangi í takt?

„Já, já, já, hið samræmda göngulag er krafan í öllum flokkum, og það er mjög varasamt fyrir lýðræðið þegar sú krafa verður of stíf. Auðvitað gera menn ýmislegt til að halda hópinn og ég er alls ekki að tala gegn málamiðlunum, en svo eru mörk sem aldrei á að fara yfir. Það gengur ekki fyrir stjórnmálamenn að segja eitt fyrir kosningar og annað eftir þær. Þingmenn eiga að standa við það sem þeir lofuðu kjósendum sínum og ef annars er krafist af þeim eiga þeir að sýna staðfestu og aldrei fórna sjálfstæðri dómgreind sinni.“

Ögmundur:

Sofandi samfélag í nánast opnum skolti heimsauðmagnsins er ekki sérlega notaleg tilhugsun. En vill hægri sinnað fólk inn í þann skolt, fólk sem talar fyrir samkeppni á markaði, hve lengi ætlar það að samsama sig gráðugu fjárfestingarkapítali sem enga samkeppni vill sjá?

Láta menn auðveldlega beygja sig til fylgispektar?

„Það gerist of oft, já. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, eða einhver í hennar búðum, fann upp hugtakið með villikettina sem ekki væri hægt að smala þá leyfði ég mér að spyrja hvort illsmalanlegir kettir væru ekki síður skaðvænlegir en pólitískir sauðir. Hjarðmennskan er það hættulegasta sem er til á Alþingi – og það á við í öllu jarðlífinu. Til þess að uppræta hana þurfum við öll að breyta okkar kompás; reyna að skilja þá sem eru á öndverðum meiði við mann sjálfan og leyfa þeim að halda sínu máli fram með rökum og af sanngirni. En síðan takast menn á um þau málefni sem byggja á gagnstæðum hagsmunum. Ekki á það við um öll mál, fjarri lagi. Ég hef stundum sagt að fjarlægi maður úr heila sérhvers manns það sem segir í hvaða stjórnmálaflokki hann er þá munum við komast að raun um að 80% mála verða mjög auðleyst. Það sem eftir stendur er hin raunverulega pólitík. Hvað finnst þingmanninum um kvótakerfið, NATÓ, ESB, einkavæðingu raforkunnar og þar fram eftir götunum? Það eru hin stóru hagsmunamál þjóðarinnar. Árangur á þingi felst ekki í því að koma slíkum málum í salt með því að leysa ágreining til málamynda. Þvert á móti þarf að örva umræðu í þjóðfélaginu, virkja þjóðfélagið í baráttunni um hin stóru mál. Telji menn sig vera að ná árangri með þögninni þá er það misskilningur; með þeim hætti er þvert á móti verið að slæva og deyfa. Það er ekkert að því að takast á um raunveruleg þjóðþrifamál. Það er þvert á móti nauðsynlegt. Það er eina leiðin til að hreyfa þjóðfélagið áfram.“

Ertu með þessu að segja að Alþingi Íslendinga sé ekki í nógu góðum tengslum við þjóðina?

„Almennt er viðhorfið á Alþingi að þjóðfélaginu skuli stýrt eins og skipi og þar séu hinar stóru ákvarðanir teknar í brúnni. Ég held aftur á móti að vilji menn berjast fyrir alvöru breytingum þá þurfi að berjast fyrir breyttum viðhorfum í þjóðfélaginu, breyttum tíðaranda sem aftur gerir samfélagslegar breytingar og lausnir gerlegar. Flokkarnir sem kenna sig við félagshyggju eru komnir langt frá rótum sínum og ætli menn sér að færa hinn pólitíska pendúl til baka, hefja félagsleg sjónarmið til vegs á ný, þarf að gera pólitík aftur að pólitík. Það verður ekki gert yfir kaffibolla, aðeins með því að vekja samfélagið. Sofandi samfélag í nánast opnum skolti heimsauðmagnsins er ekki sérlega notaleg tilhugsun. En vill hægri sinnað fólk inn í þann skolt, fólk sem talar fyrir samkeppni á markaði, hve lengi ætlar það að samsama sig gráðugu fjárfestingarkapítali sem enga samkeppni vill sjá? Það eru ekki bara vinstrimenn sem þurfa að horfa í eigin barm, það þurfa hægri menn að gera líka. Einnig þeir þurfa pólitíska örvunarsprautu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: