„Það er talað um jöfnuð, það er talað um velsæld og það er talað um að vera fyrir alla landsmenn. Þessi ríkisstjórn hefur haft heilt kjörtímabil til að sýna hvort hún er raunverulega fyrir alla landsmenn. Fátækt fólk hefur beðið allt kjörtímabilið í von um að hugsanlega myndu þau hætta að skattleggja fátækasta fólkið. Ég var að vona einhvern veginn að það yrði eitthvað meira fast í hendi, bæði í stjórnmálasáttmála þessarar ríkisstjórnar og í stefnuræðu hæstvirts forsætisráðherra, eitthvað um hvað ætti raunverulega að gera fyrir tugþúsundir Íslendinga sem kvíða núna jólunum. Hvað á að gera fyrir börnin sem leggjast svöng á koddann? Hvað á að gera í útskriftarvandanum þar sem hundrað eldri borgarar bíða eftir því að komast í ærlegt búsetuúrræði á síðustu ævidögum?“
Þetta er hluti af ræðu Ingu Sæland á Alþingi í kvöld.
„Ég vil sjá eitthvað annað á blaði en vonir, drauma og þrár. Ég vil sjá raunverulegar aðgerðir. Það eina sem ég sá virkilega raunverulegt í þessari stefnuræðu — sem gladdi mig af öllu hjarta og ég vona svo sannarlega að verði ekki geymt þangað til fimm mínútur í næsta kjördag, ef ríkisstjórnin skyldi svo farsællega halda út kjörtímabilið — og það var löggilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég segi bara, virðulegi forseti: Kæra þjóð. Betur má ef duga skal,“ sagði Inga.
Hér er tengill á ræðu Ingu Sæland.