- Advertisement -

Skora á Katrínu að segja af sér

Með því að greiða því atkvæði að niðurstöður kosninga í Norðvesturkjördæmi skuli standa þrátt fyrir alvarlega annmarka og lögbrot hefur Katrín Jakobsdóttir gerst samábyrg meiri hluta þingsins.

ÁLYKTUN: Aðalfundur Stjórnarskrárfélagsins skorar á forsætisráðherra að segja af sér.

Stjórnarskrárfélagið fordæmir framgöngu Alþingis gagnvart lýðræði í landinu og skorar á forsætisráðherra að taka fulla ábyrð á þeirri afstöðu sinni að greiða atkvæði með því að nýliðnar alþingiskosningar skyldu standa, þrátt fyrir alvarleg brot á kosningalögum.

Í ljósi atburða síðustu daga skorar félagið á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að segja af sér ef Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu að með staðfestingu kosninganna hafi Ísland gerst brotlegt gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ákvörðun Alþingis heggur stórt og varanlegt skarð í traust kjósenda gagnvart sjálfu löggjafarvaldinu, enda óumdeilt að umfangsmikil lögbrot áttu sér stað í talningu og meðferð atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Öryggisreglurnar sem brotnar voru eiga að tryggja að almenningur geti treyst niðurstöðum lýðræðislegra kosninga.

Valdi fylgir ábyrgð.

Brot Alþingis gegn lögum og grundvallarforsendum lýðræðisins er enn alvarlegra í ljósi þess að í nær 9 ár hefur þingið hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um að tillögur stjórnlagaráðs skuli vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. Þar er úreltu fyrirkomulagi um að Alþingi úrskurði um eigin kosningar breytt og séð til þess að úrskurði um lögmæti kosninga megi vísa til dómstóla.

Það að Alþingi hafi hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í bráðum áratug, eykur enn á alvarleika þess að láta sérhagsmuni þingmanna ganga framar landslögum og þeim ríku hagsmunum sem þjóðin hefur af því að geta treyst niðurstöðum lýðræðislegra kosninga. Alþingi hefur með öðrum orðum tekið sér vald umfram það sem borgarar þessa lands vilja veita þinginu. Þessi valdtaka þingsins gengur þvert á þá grundvallarreglu að þjóðin sé uppspretta alls opinbers valds.

Valdi fylgir ábyrgð. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tók á móti 43.423 staðfestum undirskriftum kjósenda þann 20. október 2020 þar sem þess var krafist að úrslit kosninganna um nýja stjórnarskrá árið 2012 yrðu virt. Líkt og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur forsætisráðherra haft þessar undirskriftir að engu. Af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er augljóst að áfram skal haldið á sömu braut og af sömu vanvirðingu við lýðræðislega stjórnarhætti og áður.

Með því að greiða því atkvæði að niðurstöður kosninga í Norðvesturkjördæmi skuli standa þrátt fyrir alvarlega annmarka og lögbrot hefur Katrín Jakobsdóttir gerst samábyrg meiri hluta þingsins. Þess vegna skorar Stjórnarskrárfélagið á hana að segja tafarlaust af sér embætti ef Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu að hún hafi með atkvæði sínu tekið þátt í að gera Ísland brotlegt gegn rétti borgara landsins til frjálsra kosninga.

Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði af sér vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða. Rétt er að Katrín Jakobsdóttir geri slíkt hið sama ef ákvörðun Alþingis fer í bága við Mannréttindasáttmálann. Æðsta handhafa framkvæmdavaldsins ber að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

 Samþykkt einróma á aðalfundi Stjórnarskrárfélagsins þann 28. nóvember 2021.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: