Marinó G. Njálsson skrifaði:
Hjalteyrarmálið kom fyrst upp fyrir rúmum 20 árum, Esther er búin að berjast fyrir réttlæti í sínum máli í a.m.k. áratug. Það tók gríðarlega langan tíma að ná fram réttlæti fyrir íbúa á „Kópavogshælinu“, nemendur Heyrnleysingjaskólans, drengina í Breiðuvík og svona mætti endalaust halda áfram. Þegar svo snjórinn neitar að hylja hlutina, þá er gert eins lítið og hægt er. Það er eins og stjórnvöld á hverjum tíma haldi að þeim verði kennt um, það sem gerðist í fortíðinni.
Núna er kominn tími til að stjórnvöld taki sér taki og setji af stað víðtæka og umfangsmikla rannsókn á þessum brotum, sem helst á að þegja í hel. Kalli eftir upplýsingum frá þolendum og ákveði ekki fyrirfram hvaða staðir falla undir rannsóknina. Það eru einfaldlega öll heimili, þar sem börn og fullorðnir hafa dvalið á vegum opinberra aðila eða í umboði þeirra.
Eini smánarbletturinn sem er á núverandi stjórnvöldum, jafnt ríkis og sveitarfélaga, er að víkja sér undan rannsókn. Að segja þetta ekki vera á sínu borði. Að benda á einhvern annan. Vilji menn axla ábyrgð, þá er það gert með því að viðurkenna vandann, bregðast við honum og biðjast fyrirgefningar á hlutdeild ríkisins eða síns sveitarfélags. Fólk er valið til ábyrgða til að axla ábyrgðina, þegar þannig stendur á, en ekki til að koma sér undan henni.
Skrifin birti Marinó á Facebooksíðu sinni.