Nátttröllin þrjú standa sig ekki
Fólk flytur í straumum frá Reykjavík og næstu byggðum og kýs að búa á Selfossi, Reykjanesbæ og Akranesi. Þar fjölgar því fólki hratt. Stjórnendur bæjarfélaganna keppast við að gera allt klárt. Til dæmis með því að stækka skólana eða byggja nýja. Leggja götur og allt annað sem þarf.
Nú er það svo að bæjaryfirvöldum ber ekki að gera allt. Margt er í verkahring ríkisins. Þar er allt í klessu. Ástæðan er sú að ríkið ákvarði fjárframlög út frá landsmeðaltali fólksfjölgunar. Ekki því sem er að gerast í raun og veru.
„Heilbrigðismál, samgöngur, lögreglu og menntamál séu dæmi um hluti sem ríkið sinni ekki nógu vel á ört vaxandi svæðum. Ein ástæðan sé að ríkið ákvarði fjárframlög út frá landsmeðaltali fólksfjölgunar,“ segir í frétt í Fréttablaðinu. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir þar: „Það er allt í lagi þar sem íbúafjölgun nemur einu prósenti en þetta er ekki í lagi þar sem hún er 10 prósent.“