Guðmundur Auðunsson skrifar:
Þetta hefði getað verið ræða frá formanni Framsóknarflokksins eða jafnvel Sjálfstæðisflokksins.
Katrín Jakopsdóttir forsætisráðherra hafði miklar áhyggjur af „skautun umræðunnar“ á flokksþingi VG um helgina. Þetta hefði getað verið ræða frá formanni Framsóknarflokksins eða jafnvel Sjálfstæðisflokksins. Greinilegt að Katrín er með þeim í stjórn. Jöfn tækifæri og jöfn réttindi, stöðugleiki og gegn öfgum! Við vitum vel að það eru engin jöfn tækifæri eða jöfn réttindi í samfélagi þar sem auðvaldið ræður öllu því sem það vill. Við Sósíalistar tökum það alveg á okkur að við erum vissulega að „skauta umræðuna“. Það er löngu kominn tími til að gera það. Eitt af því sem nýfrjálshyggjan hefur gert við stjórnmálin er að úthýsa umræðu um grundvallaratriði í stjórnmálum. Samfélag kapítalismans er samkvæmt henni „the only game in town“, eins og þeir segja á ensku. Stjórnmálin eigi að snúast um hver sé „bestur“ að stjórna. VG hefur greinilega gleypt þessa nýfrjálshyggju með húð og hár. Kjörorð flokksins er nú „Það skiptir máli hver stjórnar“, takið eftir hver ekki hverjir svo maður tali nú ekki um hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur. Það skiptir ekki máli svo lengi sem Katrín er forsætisráðherra. Nýfrjálshyggjustjórnmál, takk fyrir. Má ekki rugga bátnum, ekki vera svona reið, öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Megum ekki skauta umræðuna þá getur eitthvað vont gerst. Vantar bara að klykkja út með gamla stefnumáli íslenskra nasista, „stétt með stétt“.
Sósíalistar vilja jöfnuð og réttlæti, ekki bara jöfn tækifæri
Sósíalistar sætti sig einfaldlega ekki við „áframhaldandi stöðugleika undir stjórn Katrínar“. Við erum búin að fá nóg af auðræðinu og þjófnaðinum á eigum almennings. Og við heimtum miklu meira en „jöfn tækifæri“. Við heimtum jöfnuð og réttlæti. Og ef Katrínu finnst það vera „skautun í stjórnmálaumræðunni“ þá verður bara að hafa það. Við viljum skauta umræðuna, við viljum ráðast að rót vandans og gegn auðvaldinu og auðræðinu. Það þarf róttæka rödd á Alþingi, það þarf sterka Sósíalista. Og þú getur líka sagt nei við svindlinu og spillingunni og kosið J-lista Sósíalista í kosningunum 25. september.
Höfundur skipar fyrsta sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.