- Advertisement -

Yfirgnæfandi meirihluti vill hækka skatta á hin ríku

Það er ekki fyrr en kemur að stjórnmálaskoðunum að finna má einn hóp sem sker sig frá. Það er Sjálfstæðisflokksfólk.

Niðurstöður könnunar sem MMR gerði fyrir Sósíalistaflokk Íslands sýna að 77 prósent landsmanna er á því að skattar sem auðugasta fólkið á Íslandi greiðir ættu að vera hærri. 18% sögðu að skattarnir mættu vera óbreyttir en aðeins 5% vildu að skattarnir á ríkasta fólkið yrðu lækkaðir.

Mikill meirihluti í öllum hópum vill hækka skatta á hin ríku. 74% karla og 80% kvenna vilja hækka skatta auðugasta fólksins, 74% hinna yngstu og 86% hinna elstu, 77% hinna mest menntuðu og 81% hinna minnst menntuðu, 74% fólks með heimilistekjur yfir milljón og 81% fólks með 600-999 þús. kr. á mánuði. Það er enginn munur á landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu og lítill munur á stéttunum nema hvað ívið færri meðal stjórnenda og æðstu embættismanna vill hækka skatta á auðugasta fólkið, 62%, en í öðrum stéttum, frá 75% upp í 85%.

Sjálfstæðisflokksfólk sker sig úr

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sósíalistaflokkurinn er eini flokkurinn sem lagt hefur til afgerandi skattahækkanir á auðugasta fólkið fyrir þessar kosningar.

Það má fullyrða að það ríkur og breiður þjóðarvilji að hækka skatta á hin ríku. Það er ekki fyrr en kemur að stjórnmálaskoðunum að finna má einn hóp sem sker sig frá. Það er Sjálfstæðisflokksfólk. Á meðan 77-98% fylgjenda annarra flokka vilja hækka skatta á hin ríku segjast aðeins 37% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins vilja hækka skatta á auðugasta fólki. 

Þetta er enn ein könnunin sem sýnir að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er algjörlega á skjön við meginþorra fólks. Ef við tökum fylgjendur allra hinna flokkanna saman þá vilja 87% þeirra hækka skatta á hin ríku en aðeins 37% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins. Það er síðan magnað að afstaða þessa jaðarhóps sem kýs Sjálfstæðisflokkinn hefur ráðið mestu um uppbyggingu íslensks samfélags.

Sósíalistar vilja skattleggja hin ríku

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Sósíalistar vilja helst hækka skatta á hin ríku, eða 98% fylgjenda flokksins. Næstir koma Píratar, 96%, þá Flokkur fólksins, 88%, Samfylkingin og VG, 85%, Viðreisn og Framsókn, 84%, þá Miðflokkurinn, 77%, og loks Sjálfstæðisflokkurinn, 37%.

Sósíalistaflokkurinn er eini flokkurinn sem lagt hefur til afgerandi skattahækkanir á auðugasta fólkið fyrir þessar kosningar. Í tilboði sínu til kjósenda um umbyltingu skattkerfisins er kafli sem kallast Skattleggjum hin ríku. Þar segir að endurreisn skattheimtu á hin ríku snúist um að leggja á auðlegðarskatt til að endurheimta það sem auðugasta fólkið náði út úr sameiginlegum sjóðum á nýfrjálshyggjuárunum, að skattleggja fjármagnstekjur með sama hætti og launatekjur, setja á hátekjuþrep og skattleggja arf með sama hætti og aðrar tekjur, ef hann er umfram verð á góðri íbúð.

Spurning um réttlæti

Lágir skattar á hin auðugustu er aðeins annar armur skattastefnu grimmdarhagkerfisins.

Tilgangur þessa er samkvæmt tilboðinu, ekki aðeins tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitasjóði heldur er markmiðið að auka réttlæti og valddreifingu innan samfélagsins. Óheftur kapítalismi sem skattkerfið vegur ekki á móti býr til alræði auðvaldsins, samfélag óréttlætis og grimmdar. Skattkerfið er því tæki til að innleiða meiri kærleika, sátt og réttlæti.

En þetta er ekki nóg. Hin auðugu hafa óteljandi leiðir til að koma sér hjá skattgreiðslum, bæði innan götóttra laga og með því að fela eignir, falsa tekjur og koma sér undan skattgreiðslum með öðrum hætti. Lágir skattar á hin auðugustu er aðeins annar armur skattastefnu grimmdarhagkerfisins. Hinn er mýgrútur undanþága og slælegt skatteftirlit.

Miðað við niðurstöðu skoðanakönnunar MMR nýtur þessi stefna breiðs stuðnings út í samfélaginu, inn í alla hópa og allar byggðir, meðal allra kynja og aldurshóp, meðal allra stétta og tekjuhópa nema hvað stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er ekki eins ákaft í að styðja þessa stefnu, að skattleggja hin ríku, og annað fólk.

Könnunin var netkönnun og gerð dagana 18. til 24. ágúst. 932 manns, 18 ára og eldri, voru spurðir og gáfu 850 upp afstöðu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: