- Advertisement -

Styrmir í andstöðu við forystu Sjálfstæðisflokksins

Gunnar Smári skrifar:

Hann stundaði njósnir fyrir Bandaríkjastjórn svo þetta heimsveldi gæti stutt íhaldið í að halda hér niðri frelsisbaráttu alþýðunnar.

Það var ekki annað hægt en að rekast á Styrmi af ýmsum tilefnum ef maður lifði og starfaði á Íslandi um minn aldur. Stundum í persónu, en oft líka þannig að maður varð var við þá valdastofnun sem Styrmir rak og ræktaði á ritstjórnarskrifstofu sinni. Í mörgu var Morgunblaðið sem hann stýrði akkúrat ekki sú blaðamennska sem ég vildi stunda, en í öðru var blaðið fyrirmynd; ekki síst þegar slys urðu eða hamfarir gengu yfir sem snertu alla landsmenn. Þá kunni Mogginn að finna til með fólki. Kannski vegna þess að Styrmir var alltaf að leita að og reyna að beisla þessa þjóðarsál, ná að stjórna henni og temja.

Ég sótti einu sinni um vinnu hjá Styrmi, þá sem oftar ósnertanlegur í hugum flestra eftir einhverja herferðina, sem blaðaútgáfa á jaðrinum oftast er. Eftir að hafa kurteislega mært mig og dáðst af kraftinum á bak við allt sem ég hafði gert sagði hann svo: Morgunblaðið myndi að sjálfsögðu líða vel með að hafa þig í vinnu, en myndi þér líða vel á Morgunblaðinu? Ég var atvinnulaus og með fjölskyldu heima sem þurfti að borða og lifa svo ég svaraði strax að ég myndi vel þola það. Samt var ég ekki ráðinn. En svona var Styrmir í mörgum samtölum, eins og persóna úr kaldastríðsbók eftir John le Carré, látandi út úr sér snjallar setningar þrungnar undirtexta.

…hvernig hans fólk hafði hneigst að nasisma…

Einu sinni fór sameiginlegur vinur okkar með mig til Styrmis á Marbakka. Það var um það leiti sem Sósíalistaflokkurinn var að fæðast. Þessi vinur er mikill hugsuður, en stjórnmál eru ekki hans sterka hlið. Honum fannst sem samhljómur væri með mörgu því sem við Styrmir værum að segja, en Styrmir var þarna kominn í virka andstöðu við forystu Sjálfstæðisflokksins, sem hann sagði að hefði svikið grasrót flokksins og breytt honum í hagsmunagæslu fyrir fáeinar allra ríkustu fjölskyldur landsins. Við sátum í eina fjóra tíma gegnt hvor öðrum, eilítið með varann á hinum, vinur okkar komst ekki að og Styrmir talaði mest allan tímann. Þarna sagði hann mér pólitíska ævisögu sína, sem er líklega jafnframt meginhluti ævisögu hans, enda var hann pólitískt dýr. Hann rak uppvöxtinn og hvernig hans fólk hafði hneigst að nasisma og hann komið þeim megin frá inn í Sjálfstæðisflokkinn og tekið þar þátt í að byggja upp alþýðufylgi flokksins með því að ná tökum á hluta verkalýðshreyfingarinnar. Síðan hélt þessi saga áfram þar til hún endaði í þessum gamla manni sem sat á móti mér og vildi að forysta síns flokks skyldi hvað sá flokkur væri og hvað hefði gert hann sterkan.

Þrátt fyrir þessa innsýn inn í hugmyndaheim sinn skyldi ég Styrmi ekki, áttaði mig ekki á honum. Ef ég myndi reyna að skrifa hér einhverja kenningu myndi ég strax sjá að ég væri að ljúga upp á hann. Styrmir var flókin niðurstaða. Kannski frekar en flestir. Hann stundaði njósnir fyrir Bandaríkjastjórn svo þetta heimsveldi gæti stutt íhaldið í að halda hér niðri frelsisbaráttu alþýðunnar. Samt taldi hann sig þjóðhollari en þau sem börðust fyrir réttindum fólks og bættum lífskjörum. Hann var ritstjóri blaðs sem gnæfði yfir aðra fjölmiðla og hafði fjárhagslegt bolmagn til að gera stórkostlega hluti, en samt lagði hann mesta áherslu á að segja ekki sumt, fjalla ekki um annað og aldrei nefna sumt fólk.

Þarna sagðist Styrmir hafa skammast sín…

Síðast hitti ég Styrmi eftir fyrirlestur sem ég hélt í Þjóðmenningarhúsinu um kvótann. Þetta var stór sögulegur bogi um hvernig barátta landsmanna fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafði endað á því að aðeins örfáar fjölskyldur höfðu náð þeim undir sig. Styrmir var hrifinn, kom til mín á eftir og tilkynnti mér að Sósíalistar myndu fljúga inn á þing með þessa narratívu. Hann óskaði mér góðs gengis.

Ég held að ástæða þess að Styrmir gat tengt við erindi okkar Sósíalista var að það sækir afl sitt að sumu til þess tíma sem Styrmir fannst að stjórnmálin skiptu máli, væru um raunverulega hluti. Í löngu frásögninni á Marbakka sagði hann mér frá því þegar hann var ásamt öðrum Sjálfstæðismönnum að undirbúa hallarbyltingu eða klofning innan Dagsbrúnar til að veikja félagið og þar með stöðu hinnar sósíalísku verkalýðsbaráttu og þeirra flokka sem spruttu af henni. Styrmir heimsótti félaga í Dagsbrún og reyndi að sveigja þá á sitt band. Allt þar til hann kom til aldraðs manns sem sagðist hafa tekið þátt í stofnun Dagsbrúnar og að hann hefði gert það af nauðsyn, hann hefði ekki átt neina aðra kosti og félagið hefði verið hans eina von. Það hefði síðan fært honum allt sem hefði verið til bóta í hans lífi; hærri laun, frí, veikindarétt, verkamannabústaði, virðingu. Og svo sneri hann sér að Styrmi og sagði: Svo kemur þú hingað til minn ungi maður og segist ætla að taka félagið af okkur. Þarna sagðist Styrmir hafa skammast sín og ekki getað haldið áfram.

Sem nasistarnir gáfu flokknum.

Hvers vegna sagði hann mér þessa sögu? Ég veit það ekki. En framhald sögunnar var að hann varði ævinni í að halda aftur af baráttusamtökum verkalýðsins, í að styrkja stöðu borgaralegra afla, að búa til þá skipulögðu vél sem hafði varið og eflt auðvaldið af grimmd og festu. Vél sem honum fannst þarna að væri orðin sálarlaus og hættuleg. Og þar sem hann sat í stólnum á Marbakka fannst mér sem hann vildi segja að nasisminn, fasíska hreyfingin sem kveikti pólitískan áhuga hans, hafi þó viljað bæta kjör og stöðu alþýðunnar, fundið til með henni. Öfugt við hans gamla flokk í dag. Sem hefði tapað hjartanu. Sem nasistarnir gáfu flokknum.

Ég get ekki teiknað Styrmi Gunnarsson fyrir ykkur. Ég er enginn Shakespeare. Það þarf svoleiðis gaur til að láta Styrmi ganga upp.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: