- Advertisement -

Öruggari snjallsímar til varnar glæpum

NEYTENDUR  „Eflaust hafa nú margir skipt gamla farsímahlunknum út fyrir tæknivæddan snjallsíma, með öllum þeim möguleikum sem því fylgja. Farsíminn er ekki lengur einungis notaður til að hringja og senda smáskilaboð, heldur einnig til að fylgjast með samfélagsmiðlum, vafra um internetið, stunda bankaviðskipti o.s.frv,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.
Samkvæmt frétt á heimasíðu U.S. News hefur hin aukna notkun snjallsíma (svo sem til að kaupa vörur á netinu og greiða fyrir þær) aukið hættuna á netárásum. Þar kemur fram að samkvæmt skýrslu frá Norton vírusvarnarfyrirtækinu árið 2013 verður einn af hverjum þremur snjallsímanotendum fyrir einhvers konar netglæp í snjallsímanum sínum. Til að verjast slíkum glæpum er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Þegar vafrað er á netinu í snjallsíma er gott að athuga hvort vefslóðin byrji á „https“ í stað „http“. Það gefur til kynna að um aukið öryggi sé að ræða á vefsíðunni og gott ráð að athuga hvort sú slóð birtist áður en gefnar eru upp viðkvæmar upplýsingar, líkt og greiðslukortanúmer.
  • Hafðu læsingu á snjallsímanum. Ef símanum er stolið geta óviðkomandi aðilar líklega komist í persónulegar upplýsingar um þig og því er gott að hafa læsingu á símanum.
  • Ekki láta símann tengjast sjálfkrafa við þráðlaus net eða bluetooth tæki. Með því að slökkva á sjálfrafa tengingu kemstu hjá því að síminn þinn tengist og sendi gögn án þess að þú vitir af því.
  • Gættu varhug við því þegar þér berast undarlegar vinabeiðnir eða tölvupóstar frá fólki sem þú kannast ekki við. Þekkt er að óprúttnir aðilar búi til falsaðan aðgang á samfélagsmiðlum til að nálgast upplýsingar frá öðrum notendum.
  • Reyndu að forðast undarleg og óvarin þráðlaus net á almenningsstöðum. Þrátt fyrir að nafnið á þráðlausa netinu gefur til kynna að það ætti að vera öruggt þá þarf svo ekki að vera. Til að mynda gæti aðili sett upp þráðlausan aðgang og skýrt það t.d. eftir litlu og sætu kaffihúsi og nýtt það svo til að fylgjast með notkun þeirra sem tengjast netinu og stela upplýsingum þeirra.

Sjá nánar á ns.is.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: