- Advertisement -

Það er engin fimm prósenta regla til að kjördæmakjörinn þingmann

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hvenær ætla fjölmiðlafólk að hætta þessari vitleysu? Það eru ENGIN mörk á því hve mikið fylgi flokkur þarf að hafa til að geta komið inn þingmanni, ef atkvæði flokksins dreifast ójafnt á kjördæmin.

„..Flokkur fólksins töluvert undir fimm prósenta lágmarkinu til að fá kjördæmakjörinn þingmann með 4,2 prósent.“

Svo skrifar einn af reyndari fjölmiðlamönnum landsins, Heimir Már Pétursson, í umfjöllun sinni um niðurstöður nýrrar skoðunarkönnunar.

Hvenær ætla fjölmiðlafólk að hætta þessari vitleysu? Það eru ENGIN mörk á því hve mikið fylgi flokkur þarf að hafa til að geta komið inn þingmanni, ef atkvæði flokksins dreifast ójafnt á kjördæmin. Lágmarkið gildir um jöfnunarþingmenn, en ekki kjördæmiskjörna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í síðustu kosningum fékk Flokkur fólksins 2.509 atkvæði eða 8,85% í Suðurkjördæmi og náði inn kjördæmiskjörnum þingmanni. Þessi fjöldi atkvæða, 2.509 atkvæði, jafngilti 1,31% atkvæða á landsvísu. Flokkur fólksins fékk líka kjördæmiskjörinn þingmann í Reykjavík-Suður. Að baki honum voru 2.914 atkvæði eða 8,16%. Samanlagt voru þessir þingmenn með 5.423 atkvæði að baki sér eða 2,84% atkvæða á landsvísu. Sem sagt tveir kjördæmiskjörnir þingmenn með langt undir 5 prósentunum sem hinn mikilreyndi fjölmiðlamaður segir að séu mörkin til að fá kjördæmiskjörinn þingmann. Vissulega fékk flokkurinn 6,93% fylgi á landsvísu, en þó hann hefði beðið afhroð í öðrum kjördæmum en þessum tveimur, þá hefði hann samt fengið tvo kjördæmiskjörna þingmenn.

Ég vil biðja fréttamenn og sérfræðinga, sem fengnir eru til að tjá sig um niðurstöður skoðanakannana, að hætta að bulla um einhver ímynduð 5% mörk til að fá kjördæmiskjörinn þingmann.

ÞAÐ ERU ENGIN MÖRK Á ÞVÍ HVE MIKIÐ FYLGI FLOKKUR ÞARF AÐ FÁ Á LANDSVÍSU TIL AÐ HLJÓTA KJÖRDÆMISKJÖRINN ÞINGMANN!

Eina sem þarf að gerast er að flokkurinn fái nægilegt fylgi til að ná 7. sæti í Norðvesturkjördæmi, 11. sæti í Suðvesturkjördæmi eða 9. sæti í einhverjum hinna. Í kosningunum árið 2017 var 7. þingmaður í Norðvesturkjördæmi með 1074,5 atkvæði að baki sér, þannig að hefði, t.d., Björt framtíð fengið 1075 atkvæði í kjördæminu, þá hefði flokkurinn fengið kjördæmiskjörinn þingmann. Atkvæðin 1075 jafngilda 0,56% á landsvísu.

Þessi endalausu rangtúlkanir greinenda og fréttamanna er hreinlega ógn við lýðræðið, þar sem fólki (kjósendum) er talin trú um, að framboð með lítið fylgi eigi ekki möguleika á að koma manni eða mönnum að byggt á því að fylgi á landsvísu sé undir 5%. Fimm prósent reglan á bara við um jöfnunarþingmenn og EKKERT annað. Fyrir framboð, eins og Flokk fólksins, Sósíalistaflokkinn og núna upp á síðkastið Miðflokkinn, sem sækja drjúgan hluta stuðnings síns í fá kjördæmi, þá skiptir það ekki öllu máli að ná 5% fylgi á landsvísu. Öllu máli skiptir að ná nægu fylgi í sterkustu kjördæmunum sínum til að fá í þeim kjördæmiskjörinn þingmann eða kannski þingmenn.

Fyrir þá sem vilja kynna sér betur hvernig úthlutun þingmanna fer fram, þá bendi ég á XVI. kafla laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis – https://www.althingi.is/lagas/151b/2000024.html. Í 107. gr. er fjallað um úthlutun kjördæmissæta. Í greininni er hvergi getið þess, að listi þurfi að fá eitthvert lágmarksfylgi á landsvísu til að fá úthlutað kjördæmissæti. Hins vegar byrjar 108. gr., sem fjallar um úthlutun jöfnunarsæta á orðunum: „Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun JÖFNUNARSÆTA sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.“ (leturbreyting er mín).

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: