- Advertisement -

Covid: Ríkisstjórnin tapaði veðmálinu

Gunnar Smári:

„Það er kominn tími til að umræðan um cóvid-aðgerðir stjórnvalda verði tekin úr höndum ráðherranna sjálfra.“

Þrátt fyrir að það hafi legið ljóst fyrir síðan síðastliðið sumar að hin svokallaða nýsjálenska leið, sem er þó aðeins aldagömul reynsla af sóttkví, var lang farsælust þar sem hennar var við komið, þ.e. á eyjum og í löndum með skýr og vel verjanleg landamæri, þá hafa íslensk stjórnvöld þráast við. Fyrst með því að treysta á Guð og lukkuna og síðan með því að treysta á að bóluefnin sem fengu fljótafgreiðslu heilbrigðisyfirvalda myndi halda og gera sóttvarnir óþarfar. Á Nýja Sjálandi er hins vegar litið á bóluefnin sem viðbót við þekktar varnir.

Meginástæðan fyrir því hversu vonglöð íslensk stjórnvöld hafa verið er mat þeirra á mikilvægi ferðaþjónustu. Þess vegna losuðu þau fyrr um takmarkanir á landamærunum vorið 2020 og aftur vorið 2021 eftir að hafa þurft að herða takmarkanir aftur. Þetta mat á mikilvægi ferðaþjónustunnar er hins vegar ofmat. Það sýndi sig þegar landsframleiðsla dróst mun minna saman í fyrra en reiknað var með.

Vonandi reynast vonir fólks réttar, um að sú bylgja sem nú gengur yfir reynist ekki eins skaðleg og þær fyrri. Vonandi deyr enginn og vonandi verða fáir illa veikir. En það er þó ljóst að almenningur þarf að taka á sig miklar fórnir, búa við takmarkanir daglegs lífs þrátt fyrir loforð ráðherranna í vor um gleðilegt takmarkalaust sumar. Staðan er önnur á Nýja Sjálandi þar sem Wellington var fært upp um viðbúnaðarstig í sex daga í júní og Auckland í harðari takmarkanir um mánaðartíma í febrúar/mars en annars hafa engar takmarkanir verið í þessum borgum síðan síðasta haust og engar takmarkanir utan þeirra í meira en ár.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En munurinn fellst ekki aðeins í íþyngjandi sóttvörnum innanlands, að Íslendingar hafi þurft að búa við þær svo til óslitið frá upphafi cóvid á meðan takmarkanir eru undantekningin á Nýja Sjálandi. Þegar hafa 30 manns dáið vegna cóvid á Íslandi en aðeins 26 á Nýja Sjálandi, þar sem búa 14 sinnum fleiri. Yfirfært yfir á íslenskan mælikvarða jafngilda dauðsföllin á Nýja Sjálandi því að tveir hefðu dáið á Íslandi. Og ef við tökum fyrstu bylgjuna frá, sem kom aftan að öllum, þá hafa 4 dáið á Nýja Sjálandi síðan 1. júní á síðasta ári en 20 á Íslandi. Miðað við fólksfjölda eru það 70 falt fleiri dauðsföll.

Línuritið ber saman fjölda smita í þessum tveimur löndum. Í raun sýnir grafið mun á stjórnvöldum sem læra af reynslunni og þeim sem gera það ekki.

Það er kominn tími til að umræðan um cóvid-aðgerðir stjórnvalda verði tekin úr höndum ráðherranna sjálfra. Það gengur ekki að þeir mæli fram langar fréttaskýringar um eigið ágæti í öllum fréttatímum. Við þurfum að greina hvaða áhættu ráðherrarnir tóku, hvert veðmálið var í raun, og hvers vegna ríkisstjórnin tapaði. Og hver ber í raun skaðann af því.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: