„Aðeins örfáum mánuðum áður en hæstvirtur forsætisráðherra tók við stjórnartaumum núverandi ríkisstjórnar sagði hún, með leyfi forseta:
„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“
Nú er þetta fólk enn þá að bíða. Það er því ekki að sjá að hæstv. ráðherra hafi beitt sér nægilega vel fyrir réttlætinu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það vegna þess að ráðherrann hefur ekki viljað beita sér eða hefur hún bara ekki getað beitt sér með hendurnar bundnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þar sem hæstvirtur ráðherra Bjarni Benediktsson heldur um pyngjuna?“
Það var Halldóra Mogensen sem þannig talaði í ræðustól Alþingis. Katrín Jakobsdóttir steig í ræðustól. Hér er hægt að lesa innihaldsrýra ræðu hennar. Halldóra var eðlilega ósátt við það sem Katrín sagði.
Katrín talaði mikið en sagði fátt.
Halldóra: „Hæstvirtur forsætisráðherra er vel Morfís-æfð og mjög sniðug í að svara ekki spurningum sem hún er spurð. Ég var ekkert að segja að það væri ekki búið að gera neitt fyrir öryrkja. Ég var bara að segja að það væri hópur af öryrkjum sem biði eftir leiðréttingu og biði eftir réttlætinu. Í þessari frægu ræðu árið 2017, þegar forsætisráðherra sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti, sagði hún að það sama ætti við um fólk á flótta sem hingað leitar.“
Halldóra sagði einnig: „Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra, sem alla vega í orði á tyllidögum segist vera annt um að efla traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi: Hver er ábyrgð ráðherrans þegar kemur að því að hreinlega standa við orð sín? Hvernig á þjóðin í ljósi sögunnar að geta trúað einu einasta orði sem hæstvirts ráðherra segir nú í aðdraganda kosninga?“
Katrín kann leikinn. Að koma í ræðustól og segja helst ekkert: „Ég ætla að sleppa því að gera að umtalsefni mælskubrögð háttvirts þingmanns þó að hún kjósi að koma hér upp með einhverjar slíkar fabúleringar sem eru auðvitað ekkert annað en fabúleringar. Staðreyndin er sú, eins og ég fór yfir áðan, að komið hefur verið til móts við tekjulægstu hópana í þessu samfélagi allt þetta kjörtímabil með því að lækka skatta á tekjulægstu hópana, með því að hækka barnabætur á tekjulægstu hópana, með því að ráðast í sértækar úrbætur bæði hvað varðar aldraða og öryrkja innan almannatryggingakerfisins. Það eru staðreyndir sem háttvirtur þingmaður fær ekki hrakið og leggst því í mælskubrögð.“
Málið dautt. Allavega að sinni.