„Þessar kosningar reyna á stjórnmálaflokkana. Standa þeir undir hlutverki sínu eða eru þeir bara handbendi hagsmunaafla, eins konar leppar þeirra? Því verður seint trúað en þeir þurfa að afsanna það með málflutningi sínum og gerðum,“ segir í nýjustu grein Styrmis Gunnarssonar.
Styrmir hittir oft naglann á höfuðið. Með skrifum sem þessum er víst að hann gerir sumum gramt í geði.
Það er of mikið sagt að svo sé vegna þess að hvað sem öðru líður er réttarkerfið sjálft frjálst og óháð.
„Fyrir utan dagleg viðfangsefni stjórnmálanna er ábending Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um hagsmunaöflin sem reyna að taka að sér landsstjórnina eitt mikilvægasta innleggið í þjóðmálaumræður á líðandi stundu. Þeim ábendingum þurfa flokkarnir sjálfir að svara og um þær þurfa þingmennirnir sjálfir og frambjóðendur að tjá sig,“ skrifar Styrmir.
Hann heldur áfram: „Hér er um að ræða hagsmunasamtök en líka stór og öflug fyrirtæki. Í návígi okkar fámenna samfélags er þetta raunverulega spurning um hvort lýðræðið á Íslandi sé sýndarveruleiki.“
Næsta kafla greinarinnar eru ekki allir sammála: „Það er of mikið sagt að svo sé vegna þess að hvað sem öðru líður er réttarkerfið sjálft frjálst og óháð. Því er hægt að treysta hvort sem um er að ræða hagsmunaaðila eða pólitík og það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli.“
Það má gagnrýna þetta. Þegar hæstaréttardómarar, svo dæmið sé tekið, vinna hlutastörf utan réttarins er víst að þeir verða í vanda, eða hafa kannski lent í vanda, vegna hagsmuna sinna utan réttarins. Og við má bæta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í dómsmálaráðuneytinu svo lengi og því skipað nær alla starfandi dómara á Íslandi.
„Þessi mál öll þarf að ræða í kosningabaráttunni vegna þess að þau eru komin á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar, þótt þau séu ekki komin á dagskrá flokkanna, eins skrýtið og það nú er,“ skrifar Styrmir.