„Manna á meðal ganga nú listar á netinu með samanburði á launakjörum bæjarstjóra hér og borgarstjóra í stórborgum úti í heimi. Ungt fólk furðar sig á að bæjarstjórar hér skuli oft vera hærra launaðir en borgarstjórar stórborga. Ef þau mál koma til umræðu kemur líka til umræðu hækkun á launakjörum kjörinna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum á undanförnum árum, sem er hinum kjörnu fulltrúum ekki hagstæð,“ skrifar Styrmir Gunnarsson í vikulegri grein sinni í Mogganum.
„Það er óþægilegt bil á milli kjörinna fulltrúa og almennra borgara. Um leið og einstaklingur er kominn á þing telur hann sig ekki lengur eiga erindi við fólkið í landinu fyrr en nálgast næstu kosningar. Frá þessu eru undantekningar en þær eru fáar. Það væri gagnlegt að þingmenn ræddu þetta í kosningabaráttunni og útskýrðu þetta frá sínu sjónarmiði,“ skrifar hann.
Það versta er kannski að margt af þessu fólki flokkar sig sem „fyrirmenni“ og finnst þau vera öðru fólki fremra.
Aðrar leifar af siðum frá hinni stéttskiptu Evrópu er orðuglingrið og forsetaembættið sjálft.
„Sennilega er hér um að ræða leifar frá gamla Íslandi, þegar háttsettir embættismenn töldu sig yfir aðra hafna. Þær leifar voru innfluttar frá því stéttskipta þjóðfélagi sem var í flestum Evrópuríkjum og er að hluta til enn. Það er tími til kominn að við losum okkur við þessar leifar, sem áttu og eiga ekkert erindi hingað. Við lifum í samfélagi sem var byggt upp af sjómönnum og bændum og eigum að vera stolt af því,“ skrifar Styrmir.
Styrmir er ekki hrifinn af forsetaembættinu.
„Aðrar leifar af siðum frá hinni stéttskiptu Evrópu er orðuglingrið og forsetaembættið sjálft. Hvort tveggja á að leggja niður. Það er beinlínis hlægilegt að það skuli hafa verið fluttir inn til Bessastaða hirðsiðir frá dönsku konungshirðinni!
Við eigum skipulega að útrýma þessum innfluttu siðum frá stéttskiptri Evrópu. Kannski frambjóðendur ættu að leita eftir umboði kjósenda til þess?“