Sprengisandur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann var meðal annars spurður um þriggja milljóna styrk til fyrirtækis Árna Gunnarssonar, fyrrum varaþingmann Framsóknarflokksins og sveitunga ráðherrans á Sauðárkróki.
„Nú spyr ég mig, hver er munurinn á að setja fjármuni í gerð heimildarmyndar um flóttamenn, sýna líf þeirra fyrir og eftir, fylgja þeim til Íslands eða setja fjármuni í óperuna Baldursbrá eða Ragnheiði. Hver er munurinn?“
Skipti þig engu hver maðurinn er þegar þú tókst ákvörðunina?
„Engu. Menn geta trúað því eða ekki. Það skiptir engu máli. Það hefur enginn annar komið með þessa hugmynd inn til okkar. Ef hugsum með okkur hvað þetta er mikilvægt, fyrir okkur Íslendinga, að sjá hvernig flóttamennirnir koma og hvernig líf þeirra breytist. Mér finnst þetta frábær hugmynd.“
Ráðherra sagði að málið hafa borið með þeim hætti; „….að þessi ágæti maður kom með þessa hugmynd til okkar. Við fórum með þetta inn í ráðuneytið og veltum fyrir okkur í þróunarsamvinnuskrifstofunni hvort það væri sniðugt að gera þetta.“
Gunnar Bragi sagðist halda að um fimmtán ár séu frá því að Árni Gunnarsson var varaþingmaður.
„Árni hefur verið tilnefndur til Edduverðlauna, svo ekki er hægt að klaga upp á gæðin hjá honum,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson.