- Advertisement -

Stærsta mál Vinstri grænna varð að engu í villikattafári Sjálfstæðisflokksins

Satt best að segja vona ég að bakland VG komi í veg fyrir frekari niðurlægingu flokksins í ríkisstjórnum með hinum þremur af fjórflokkunum.

„Kemur sífellt betur og betur í ljós, að stjórnmál á Íslandi snúast ekki um að gera það sem er rétt, heldur hvað kemur „flokknum“ best.  Ekkert nýtt, en maður vonaðist til, að hlutirnir væru að breytast,“ skrifaði Marinó G. Njálsson á Facebook.

„Hér áður fyrr var það þó þannig, að stjórnarflokkar stóðu saman að því að uppfylla stjórnarsáttmálann og það voru stjórnarandstöðuflokkarnir sem reyndu að koma lestinni af sporunum.  Kom sú hugsun mjög vel fram í fleygum orðum Ólafar heitinnar Nordal, þá varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um formann sinn 9. febrúar, 2011:

„Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvanalegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ráðherrastólar geta ekki ítrekað verið mikilvægari en sjálfsvirðing flokksins og hugsjónir.

Þarna var Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu, en í núverandi ríkisstjórn virðist helst sem hluti þingmanna flokksins séu í stjórnarandstöðu.  Raunar virðast þingmenn stjórnarflokkanna ansi oft standa gegn stefnumálum ríkisstjórnarinnar og koma í veg fyrir að þau komist í gegn.  Hefði verið nær, að þessir þingmenn hefðu bara gerst óháðir og þannig opinberlega hætt að styðja ríkisstjórnina.

Greinilegt er að þingmenn VG eru búnir að fá sig fullsadda á framgöngu einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ákváðu að „hefna“ sín með því að afgreiða ekki frumvarp að breytingu á fjarskiptalögum.  Þetta er alveg ógurleg „hefnd“ sem bitnar ekki meira en svo á Sjálfstæðisflokknum að hann komst einhverjum klukkutímum fyrr í sumarfrí.

Annars er áhugavert að lesa yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og ljóst að hægt verður að nota hann lítið breyttan haldi flokkarnir samstarfi sínu áfram.  Ég skil svo sem ekki af hverju VG ætti að vilja það, því stærsta mál flokksins varð að engu í villikattafári Sjálfstæðisflokksins.  Þá er ég að tala um hálendisþjóðgarðinn.

Höfum í huga, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“

Þarna segir ekki „Gerð verður tilraun til að stofna þjóðgarð, ef tekst að fá þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar til að styðja málið“.  Nei, þarna stendur „Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu“.  Að það hafi ekki tekist sýnir, að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru mótfallnir hugmyndinni frá upphafi, þó svo að þeir leyfðu VG að hafa þetta inni í stjórnarsáttmálanum.

Ætla ekki að fjalla frekar um stjórnarsáttmálann, en klóra mig í hausnum yfir efndum þess sem þar stendur. Reynslan hefur sýnt að stjórnarsáttmálar eru margnýttir og endurnota, en satt best að segja vona ég að bakland VG komi í veg fyrir frekari niðurlægingu flokksins í ríkisstjórnum með hinum þremur af fjórflokkunum. Ráðherrastólar geta ekki ítrekað verið mikilvægari en sjálfsvirðing flokksins og hugsjónir,“ skrifaði Marinó.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: