„Talsmenn einkavæðingarinnar benda gjarnan á að opinbera heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum á vissum sviðum. Ein birtingarmynd þess er óhófleg bið eftir aðgerðum sem auka lífsgæði til muna en teljast ekki lífsnauðsynlegar. Þar er látið eins og það að fela einkaaðilum verkefnin sé einhvers konar töfralausn. Hið rétta er að það er engin lausn að einkavæða þjónustuna og dreifa verkefnum milli læknastofa og sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja. Það eykur hins vegar líkurnar á ósamhæfðri og ósamfelldri þjónustu og torveldar eftirlit,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, meðal annars í nýrri Moggagrein.
„Vandamálið er ekki skortur á vilja innan opinbera heilbrigðiskerfisins til að minnka biðlistana og veita framúrskarandi þjónustu heldur viðvarandi niðurskurður og mannekla sem hefur einkennt kerfið undanfarin ár og áratugi. Vandamálið er ekki heldur að heilbrigðiskerfið geti ekki sinnt þeim verkefnum sem við viljum að sé sinnt. Vandinn er sá að við veitum ekki nægilegt fé til þess að sinna þessum verkefnum,“ skrifar Sonja.