Gunnar Smári skrifar:
Samkvæmt nýrri könnun MMR er engin breyting á fylgi flokkanna frá síðustu mælingu sem nær út fyrir skekkjumörk, nema hvað fullyrða má að Flokkur fólksins er að tapa fylgi. Aðrir flokkar dingla innan sinna skekkjumarka.
Ef niðurstöður MMR nú yrði úrslit kosninga yrði þingheimur svona (innan sviga er breyting frá núverandi þingmannafjölda, eftir flokkaflakk):
Ríkisstjórnin:
Sjálfstæðisflokkurinn: 17 þingmenn (+1)
Framsókn: 8 þingmenn (óbreytt)
VG: 7 þingmenn (–2)
Ríkisstjórnin alls: 32 þingmenn (–1)
Stjórnarandstaða I (hin svokallaða frjálslynda miðja):
Píratar: 9 þingmenn (+2)
Viðreisn: 7 þingmenn (+3)
Samfylkingin: 7 þingmenn (-1)
Stjórnarandstaða I: 23 þingmaður (+4)
Stjórnarandstaða II (nýtt hægri)
Miðflokkurinn: 4 þingmenn (–5)
Flokkur fólksins: enginn þingmaður (–2)
Stjórnarandstaða II: 4 þingmenn (–7)
Stjórnarandstaða III, utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 4 þingmenn (+4)
Ríkisstjórnin heldur velli með minnstum mun, sem fáir munu vilja treysta á. Á liðnu kjörtímabili flúðu tveir þingmenn VG og síðast þegar VG var í stjórn flúðu fimm. Svo enginn mun treysta á ríkisstjórn með eins manns meirihluta þar sem VG er innanborðs.
Fréttirnar af stjórnarandstöðunni eru þær að Píratar eru stærstir inn á hinni svokölluðu frjálslyndu miðju og Samfylkingin minnst. Flokkarnir af hægri jaðrinum, sem unnu kosningasigra 2017 og komu nýir inn á þing, eru að hrynja. Flokkur fólksins hefur ekki mælst með minna fylgi hjá MMR á þessu kjörtímabili og Miðflokkurinn er aðeins örlítið yfir fylginu eftir Klausturupptökurnar.
Sósíalistar eru nú að mælast með fjóra þingmenn inni fjórðu könnunina í röð hjá MMR. Þeir mældust með 6% í lok apríl, 5,7% í byrjun maí, 6.7% upp úr miðjum maí og 5,6% undir mánaðamótin. Þetta eru sveiflur innan skekkjumarka; við getum sagt að fylgið sé á þessum slóðum, frá 5,5% og upp undir 7%.
Nú kann einhverjum að finnast undarlegt að sósíalistar hafi mælst með 6,7% upp úr miðjum maí, en skýringin á því er að MMR sendi ekki út fréttatilkynningu um þá könnun, það má hins vegar sjá hana í þessari nýju tilkynningu. Ef við drögum þrjár kannanir MMR í maí saman þá er meðaltalsfylgi flokkanna í maí svona (innan sviga breytingar frá kosningunum 2017):
Sjálfstæðisflokkur: 24,3%
(-0,9 prósentustig)
VG: 13,0% (-3,9 prósentustig)
Píratar: 11,9% (+2,7 prósentustig)
Framsókn: 11,6% (+0,9 prósentustig)
Samfylkingin: 11,3% (–0,8 prósentustig)
Viðreisn: 10,4% (+3,7 prósentustig)
Miðflokkurinn: 6,7% (–4,2 prósentustig)
Sósíalistar: 6,0% (+6,0 prósentustig)
Flokkur fólksins: 3,4% (–3,5 prósentustig)
Þessa sögu má stytta: Sósíalistar vinna á og líka Viðreisn og Píratar en Miðflokkur, VG og Flokkur fólksins tapa. Aðrir (Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylking) standa í stað. Það er sveifla inn á miðjuna og yfir til vinstri.
Sáralítill munur er á samanlagðri mælingu MMR í maí og mælingu Gallup sem nær yfir sama tíma, ekkert frávik er utan skekkjumarka. MMR mælir VG og Samfylkingu aðeins lægra og Framsókn aðeins hærra, en munurinn er svo lítill að það tekur því ekki að ræða hann. Ef kannanir eru skakkar þá eru þær allar skakkar, en líklega verðum við að reikna með að þetta sé um það vil svona.
Það er að sama skapi lítill munur á hversu margir gáfu upp afstöðu sína, þau eru um 80% í báðum tilfellum. Sem merkir að rúmlega 19% fólks er tilbúið að segjast vera að íhuga að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi flokksins hækkar svo þar sem hin óákveðnu, þau sem vilja ekki gefa upp afstöðu sína og þau sem segjast ekki ætla að kjósa eða skila auðu eru ekki talin með.
En aftur að könnun dagsins. Ef við berum hana saman við stöðuna hjá MMR í ársbyrjun, fyrstu daga janúarmánaðar, þá hefur fylgisbreytingin verið þessi:
Þessi eru að tapa í kosningabaráttunni:
Samfylkingin: –4,7 prósentustig
Miðflokkur: –2,1 prósentustig
Flokkur fólksins: –2,1 prósentustig
Þessi standa í stað:
Sjálfstæðisflokkur: +0,2 prósentustig
VG: +0,2 prósentustig
Þessi lyftast aðeins:
Píratar: +1,2 prósentustig
Sósíalistar: +1,2 prósentustig
Þessi sækja á:
Viðreisn: +2,2 prósentustig
Framsókn: +3,4 prósentustig
Þessa sögu má stytta: Á fyrstu fimm mánuðum ársins, sem kalla má for- for-kosningabaráttu hefur Samfylkingin tapað fylgi til Framsóknar og Viðreisnar. Nýju hægri flokkarnir eru síga niður, ef eitthvað er, og nýju flokkarnir á miðjunni og til vinstri, Sósíalistar og Píratar að stíga upp, ef eitthvað er.
Í þessari könnun nefna 1,6% þeirra sem taka afstöðu aðra flokka en hér eru nefndir. Þar af krossa 0,5% við Bjarta framtíð, 0,4% við Dögun og 0,2% við Alþýðufylkinguna, en þessir flokkar buðu fram 2017 og eru enn á matseðli könnunarfyrirtækjanna. Eftir standa 0,5% sem er þá fólk sem krossar við valkostinn „Annað“ og getur þá hafa skrifað flokk eða framboð sem ekki var á listanum sem skýringu. Þar á meðal má vera að sum hafi nefnt Frjálslynda lýðræðisflokkinn eða Landsflokkinn, en forsvarsmenn þessara flokka hafa boðað framboð. Þetta hlutfall fór hæðst í 1,1% í lok apríl en hefur annars rokkað kringum 0,0 til 0,5%.