- Advertisement -

Búið að ákveða hverjir fái Íslandsbanka?

…og klára svo að einkavæða bankann eftir kosningar…

„Það á að selja 35% af Íslandsbanka í sumar. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir Vinstri Græn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ætla að selja stóran hlut Íslandsbanka fyrir kosningar og klára svo að einkavæða bankann eftir kosningar,“ skrifar Oddný Harðardóttir.

„Ég held að það sé búið að ákveða hverjir bjóði í og kaupi hlutinn. Og stjórnarflokkunum liggi á að koma bankanum í hendur sinna manna sem geta þá hafist handa við að dæla peningum út úr bankanum til nýrra eigenda.

Hér er álit mitt sem ég lagði fram í efnahags- og viðskiptanefnd í lok janúar þegar fjármálaráðherra ýtti söluferlinu af stað.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

ÁFORM RÍKISSTJÓRNARINNAR UM SÖLU ÍSLANDSBANKA

Athugasemdir Oddnýjar G. Harðardóttur fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis

Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra og minnisblaði Bankasýslu ríkisins til ráðherra um sölumeðferð eignarhluta í Íslandsbanka hf. er ekkert að finna um það hvers vegna það liggur svona mikið á að selja hluti ríkisins í Íslandsbanka. Sú spurning vaknar því hvort allur asinn sé til þess að hafa selt bankann eða hafið söluferli hans fyrir næstu kosningar til Alþingis.

Bankakerfi framtíðarinnar

Því hefur ekki verið svarað…

Frá bankahruni hefur ekki farið fram nauðsynleg almenn umræða um hvernig almenningur vill að bankakerfið þróist hér á landi og hvað þurfi til að koma til móts við vilja almennings í þeim efnum. Skapa þarf traustan grundvöll fyrir stefnumörkun með umræðu í samfélaginu sem þarf að eiga sér stað áður en hafist er handa við að selja hluti ríkisins í bönkunum. Það að ríkið haldi á svo stórum hluta bankakerfisins sem raun ber vitni skapar ákveðin tækifæri til breytinga á bankakerfinu.

Áður en ráðist er í sölu á hlut ríkisins í bönkunum þarf að svara þeirri spurningu hvernig bankakerfi tryggi góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Þar þurfa leiðarstefin að vera fjölbreytni, samkeppni, öflugt eftirlit, neytendavernd og örugg ódýr innlend greiðslumiðlun.

Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga eru augljósar áskoranir til staðar í fjármálaumhverfinu. Vega þarf og m eta kosti samfélagsbanka, leitast við að laða að æskilega eigendur fjármálastofnana með þekkingu á bankarekstri og mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingabankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins.

Mikil óvissa

Því hefur ekki verið svarað hvers vegna hefja á sölu á bankahlutum á sama tíma og mikil óvissa er í heimsfaraldri. Afleiðingar efnahagsþrenginganna eru enn mjög óljósar og því óábyrgt að ekki sé metið hvaða áhrif sala á bönkum við slíkar aðstæður geti haft á söluverð, fyrirtæki í viðskiptum við bankann eða hvaða áhrif innlend fjárfesting í bönkum hafi á hagkerfið í heild.

Töluverður hluti lánabókar Íslandsbanka er í frystingu, a.m.k. 100 milljarðar kr. Slík staða mun væntanlega hafa áhrif á söluverð til lækkunar enda óvissa um endanlegar heimtur.

Óvissa mun aukast…

Bankinn mun þurfa að fara í fjárhagslega endurskipulagningu með hluta viðskiptavina sinna. Ríkið hefur varið miklum fjármunum til að auka líkur á að fyrirtæki verði í stakk búin til að skapa verðmæti að nýju sem fyrst, eftir að faraldurinn hefur gengið yfir. Fyrirtækin eiga allt sitt undir góðum fyrirgreiðslum frá ríkinu og viðskiptabankanum og það skiptir samfélagið einnig miklu máli að atvinnulíf taki fljótt við sér þegar faraldurinn hefur gengið yfir.

Óvissa mun aukast með nýjum hluthöfum sem hafa sín sjálfstæðu markmið með eignarhaldinu.

Óvissa er um hve stóran hluta bankans á að selja og engir æskilegir eigendur með reynslu af bankastarfsemi eru í sjónmáli. Í gögnum málsins er talað um að selja eigi 25% að lágmarki, eingöngu vegna þess að Kauphöllin setur það lágmark. Að sama skapi er ekkert hámark því að Kauphöllin leggst gegn því. Með fyrir fram gefnu hámarki muni erlendir aðilar ekki hafa áhuga á að taka þátt í útboðinu. Ef aðeins minni hluti bankans væri til sölu væri hætta á að þeir teldu þátttöku í útboðinu ekki ómaksins virði.

Það að hlutirnir séu aðeins boðnir út á innlendum markaði takmarkar kaupendahópinn verulega. Engin vinna hefur farið fram af hálfu stjórnvalda við að laða að stóra erlenda aðila með þekkingu á bankastarfsemi. Höfundar Hvítbókarinnar um framtíðarskipan bankakerfisins og Samkeppniseftirlitið telja þó slíka aðila æskilega eigendur hluta bankakerfisins á Íslandi.

Samkeppni á bankamarkaði

Það að hafa þrjá stóra banka sem allir eru kerfislega mikilvægir er takmarkandi fyrir samkeppni á markaði og stuðlar að fákeppni óháð því hvort einn eða tveir bankar séu í eigu einkaaðila. Ef vilji er til þess að skapa rými fyrir fjölbreytni og meiri samkeppni milli banka þarf að huga að heildarskipulagi kerfisins og gera breytingar.

Rannsókn á þeirri einkavæðingu hefur ekki farið fram…

Samkeppniseftirlitið bendir á að við undirbúning ákvörðunar um svo veigamikla sölu á eignarhlut ríkisins sé mikilvægt að áhrif sölunnar á samkeppnisumhverfið séu metin til þaula þannig að virk samkeppni ásamt regluverki geti stutt við fjármálastöðugleika. Ekki sé fjallað um samkeppnismál í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um söluna, þrátt fyrir að íslenskur fjármálamarkaður beri sterk fákeppniseinkenni. Lántakendur hafi úr fáum kostum að velja og bankarnir þrír í lykilstöðu að því er varðar þróun atvinnustarfsemi í landinu.

Líklegir kaupendur eru lífeyrissjóðir landsmanna. Lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar í Arion banka og eru einnig keppinautar bankanna á lánamarkaði, ásamt því að vera fyrirferðarmiklir viðskiptavinir bankanna. Augljós samkeppnisleg vandamál hljóta því að skapast ef lífeyrissjóðirnir verða stærri eigendur bankakerfisins en nú er.

Undirbúningi ábótavant

Aðeins eru rúm 11 ár frá því að einkareknir bankar hrundu á Íslandi með afar neikvæðum efnahagslegum afleiðingum. Rannsókn á þeirri einkavæðingu hefur ekki farið fram, þrátt fyrir samþykki Alþingis á slíkri rannsókn.

Jafnvel þó að regluverk um bankakerfið hafi batnað frá hruni er nauðsyn á virku og öflugu fjármála- og samkeppniseftirliti. Nauðsynlegt er að styrkja eftirlitsstofnanirnar svo þær geti sinnt lagalegum skyldum sínum.

Ekkert land er að selja ríkiseignir um þessar mundir þó að staða á mörkuðum sé víða góð og skuldir ríkja um allan heim hafi aukist gríðarlega. E f íslensk stjórnvöld telja að hagkvæmt sé að selja vel stæðan banka sem skilað hefur góðum arði í ríkissjóð, til að greiða niður skuldir á neikvæðum raunvöxtum, hafa þau ekki reiknað dæmið til enda. Hafa þarf í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki og ekkert bendir til breytinga á því í bráð.

Við undirbúning á sölu Íslandsbanka þarf að taka tillit til stöðu efnahags- og atvinnumála. Það hefur ekki verið gert. Slakur undirbúningur og mikil pressa að hálfu stjórnvalda á sölu hluta ríkisins í Íslandsbanka við óvissu og fordæmalausar samfélagslegar og efnahagslegar aðstæður er ekki traustvekjandi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: