„Sjálfstæðisflokkurinn má ekki við frekari uppákomum en orðið er,“ segir í grein Styrmis Gunnarssonar í Mogga dagsins.
Og hvert er tilefnið?
„Í fréttum RÚV fyrir viku var talið að litlar líkur væru á því að hálendisfrumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi vegna andstöðu í þingflokkum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Málið er í stjórnarsáttmálanum og þess vegna jafngilti það broti á þeim sáttmála ef slíkt gerðist. Flokkarnir tveir færu varlega í slíkt.“
Styrmi er mikið niðri fyrir:
„Að heykjast á friðun hálendisins nú jafngilti því að við hefðum gefist upp við verndun fiskistofnanna,“ og svo þetta:
„Óbyggðir Íslands, hvort sem er á hálendinu eða á norðanverðum Vestfjörðum, eru hluti af auðlindum þessarar þjóðar og við eigum að umgangast þær sem slíkar.“
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fær væna sneið í grein Styrmis. Njáll Trausti berst fyrir að lögð verði hraðbraut yfir hálendið:
„Þeir sem vilja malbika hálendið eru að tala fyrir einhverri forneskju. Þeir eru talsmenn sjónarmiða liðins tíma.“
„Þingmenn tveggja elztu stjórnmálaflokka þjóðarinnar eiga ekki að láta standa sig að þeirri skammsýni og þröngsýni að það verði þeirra verk að koma í veg fyrir verndun óbyggðanna. Það yrði þeim til ævarandi skammar og flokkum þeirra,“ skrifar Styrmis og óttast að með því slíti þeir vináttunni við Vinstri græn.
„Samstarf núverandi stjórnarflokka hefur gengið vel og farsælast fyrir þjóðina að því yrði haldið áfram. Fyrir nokkrum mánuðum komu fram vísbendingar um að Framsókn væri farin að horfa til vinstri, sem hefur verið fastur liður í sögu flokksins. En það er alveg ljóst að VG mundi ekki fyrirgefa það ef ekki yrði staðið við samkomulag um þjóðgarð á hálendinu,“ skrifar hann og fer næst í hvernig völd geta spillt:
„Það má vel vera að einhverjir þingmenn séu orðnir svo vanir því að ráða að þeir skilji þetta ekki. Slíkt skilningsleysi er einn helzti fylgifiskur langvarandi valda. Og kannski læra menn aldrei nema með skyndilegum valdamissi.“
Grein Styrmis er umtalsvert lengri en það sem hér segir.