Alþingi „Birgitta Jónsdóttir hefur ekki úr háum söðli að detta í þessari umræðu frekar en áður. Ummæli hennar í kvöldfréttum sjónvarpsins 11. janúar síðastliðinn þar sem fjallað var um viðskiptabannið segir meira um þingmanninn en þá þingmenn sem hún atar auri og lygum með því, en því miður eru slík vinnubrögð daglegt brauð hjá háttvirtum þingmanni Birgittu Jónsdóttur.“
Þannig mæltist Ásmundi Frirðrikssyni á Alþingi í dag.
Síðan las Ásmundur orðrétt haft eftir Birgittu:
„Ég verð að segja að það er nú þannig að margir af þeim þingmönnum sem hafa tekið undir með málflutningi sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa þegið gríðarlega háar fjárhæðir frá þessum sömu fyrirtækjum í sínum prófkjörum þannig að ég verð nú bara setja svolítinn fyrirvara við þetta allt saman. Ég tel að málflutningur og rök þau sem hafa komið fram frá utanríkisráðherra vera skynsamleg.“
Hef frá upphafi mótmælt afstöðu ríkisstjórnarinnar
Hann hóf ræðu sína, undir dagskrárliðnum; störf þinsins á þessum orðum: „Rússlandsmarkaður hefur um áratugaskeið verið mikilvægasta markaður fyrir fiskafurðir og matvælaframleiðslu okkar Íslendinga, en nú erum við sjálfkrafa að kasta þeim verðmæta markaði fyrir róða. Ég hef frá upphafi mótmælt afstöðu ríkisstjórnar Íslands að vera í slagtogi með Evrópusambandinu og fleiri þjóðum í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Þær staðföstu þjóðir sem við fylgjum eins og skugginn að hafa ekki lagt mikið undir í viðskiptaþvingunum sínum á Rússlandi og heildaráhrif aðgerðanna varla mælanlegar í þeirra efnahag, en við leggjum verðmætan markað matvælaframleiðslu þjóðarinnar undir og milljarða laun fiskvinnslufólksins og sjómanna tapast. Þess vegna er annar mikilvægasti markaður okkar fyrir frystar loðnuafurðir lokaður í upphafi loðnuvertíðar. Er ekki nægjanlegt að sjómenn og útgerðin og þjóðarbúið búi við óútreiknanlega náttúru sem í senn eykur og skerðir tekjumöguleika þeirra eftir duttlungum sem enginn ræður við?“
Undrandi á vinstri blokkinni
„Það kemur mér á óvart að vinstri blokkin í þinginu standi heil og óskipt að því að sjómenn og fiskverkafólk tapi 2.500 milljónum í töpuðum launatekjum vegna samflots við Evrópusambandið í viðskiptabanni sem engum árangri skilar,“ sagði Ámundur.