Sprengisandur Meðan Bjarni spókar sig í Kína með nokkurra milljarða upp á vasann, sem áhöld eru uppi um, hvort hann hafi fengið heimild til að ráðstafa, kemur æ betur í ljós að fyrirmyndarríkið Ísland, er kannski ekki sú fríða fyrirmynd sem við státum okkur af.
Eða eigum við að gera orð forsætisráðherrans að okkar, en hann skrifaði áramótaboðskap í Morgunblaðið um áramórtin og sagði þar: „Þegar árangur næst á mörgum sviðum beinist athyglin að undantekningunum. Þær vekja meiri athygli en ella einmitt vegna þess að þær skera sig úr en það þýðir um leið að þær eru orðnar viðráðanlegri en áður. Látum það verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Látum árangurinn, hið góða, leiða okkur áfram fremur en neikvæðni og svartsýni.“
Gott og vel. Trúum þessu og segjum sem svo að undantekningarnar, það er það sem aflaga fer hér hjá okkur, sé viðráðanlegri en áður. En hvað er það sem er að, og heyrir til undantekninga og því viðráðanlegra en áður.
Já, hvar skal leita? Ég fletti Mogganum frá nýliðinni viku og helst bara forsíðunni og kannski næstu fréttasíðum. Jæja, hvaða fréttir voru ráðandi á helstu fréttasíðum Moggans síðustu daga. Kannski á ég ekki að segja fréttir, heldur fara leið forsætisráðherra og tala um undantekningar.
Sjáum til.
„Bíða í 120 daga á spítalanum.“ Segir í fyrirsögn á forsíðu. Í fréttinni sagði meðal annars: „Meðalbiðtími aldraðra eftir færni- og heilsumati á Landspítalanum er 52 dagar. Meðallegutími þeirra meðan beðið er eftir viðeigandi úrræðum, sem geta t.d. verið dvöl á hjúkrunarheimili, er 68 dagar. Samtals eru þetta um fjórir mánuðir.“
Þetta er ekki góð undantekning, forsætisráðherra. En er hún viðráðanleg? Vonandi.
Jæja, best að halda áfram að fletta Mogganum frá síðustu viku. Hvaða frétt kemur næst? Hér er næsta fyrirsögn: „Þjónusta í dreifbýlinu versnar“. Og hvaða þjónusta, jú; „Landpóstur kemur annan hvern dag“. Já, fólk kvartar, með réttu eða röngu, yfir að fá ekki póstinn eins oft og áður.
Höldum áfram að lesa Moggann: „Forvarnir geta spornað við því að margir Íslendingar þurfi að fara á örorkubætur,“ sagði í Mogganum í vikunni. Valgeir Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinnuverndar, segir að með forvörnum á vinnustöðum sé hægt að koma í veg fyrir að fjöldi fólks fari á örorkubætur. „Nú erum við svolítið eins og bátur sem lekur. Það er verið að ausa á fullu úr bátnum. Menn hafa varla undan. Vatnið streymir inn í bátinn en við erum ekki að fást nógu vel við orsakir lekans. Það er enginn að setja tappa í götin,“ segir Valgeir.
Merkilegur dómur yfir kerfinu okkar. Vonandi er þetta bara ein undantekningin enn, sem er þá, ef vitnað er til forsætisráðherra, viðráðanleg.
Þá eru það lög um leigjendur og leigusala. „Leigulög vernda svörtu sauðina“, segir í fyrirsögn. „Tvö útburðarmál á borði Húseigendafélagsins á síðasta ári Karlmaður borgaði ekki leigu í meira en hálft ár Mikill kostnaður fellur á leigusalann.“
Það kostar ekki að eyða þessari undantekningu, ef hún er þá einhver undantekning.
Hafi sést til sólar í fréttaflutning Moggans í vikunni sem leið, dregur nú aldeilis ský fyrir það ljós.
Ég les: „Öldrunarheimili illa stödd.“ Neyðarfundur boðaður vegna ástandsins Ríkisvaldið viðurkenni þörf fyrir aukið fjármagn
Hundruð milljóna greidd með öldrunarheimilum á Akureyri.
Nú vitum við að þetta er ekki undantekning. Svona er þetta bara. Forsætisráðherra, vakna þú, heilbrigðisráðherra vakna þú.
Þunginn í fréttunum eykst enn: Segir biðtíma og kostnað geta leitt til örorku 13 gigtarlæknar sinna 66.000 manns.
Örorka stundum eina útgönguleiðin.
Ha, er það svo að hver gigtarlæknir hafi fleiri en fimm þúsund sjúklinga og að örorka sé eina útgönguleiðin. Kommon, þetta er alvarleg undantekning.
Og að lokum þessi frétt hér: Hafa ekki efni á tannréttingum
Sama niðurgreiðsluupphæð í 15 ár Börnum í tannréttingum fækkaði um 30-40% eftir hrun Kostnaður er 800.000-1.500.000 og foreldrar greiða nánast allt.
Hér gefst ég upp. Þetta voru bara fáir dagar úr Morgunblaðinu. „Þegar árangur næst á mörgum sviðum beinist athyglin að undantekningunum,“ eru orð forsætisráðherra. Morgunblaðið hefur verið einbeitt að benda á þær; Sigmundur Davíð, og þú sagðir sjálfur um það sem þú kallar undantekningar; „…þær skera sig úr en það þýðir um leið að þær eru orðnar viðráðanlegri en áður.“
Inngangurinn ap Sprengisandi í morgun.
Sigurjón M. Egilsson.