- Advertisement -

Alþingi til skammar að hafa ekki brugðist við og fjölgað jöfnunarsætum

Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

„Það er Alþingi til skammar að hafa ekki brugðist við og fjölgað jöfnunarsætum strax eftir kosningarnar 2013. Það bítur höfuðið af skömminni ef það samþykkir ekki breytingar á kosningalögum fyrir kosningarnar í haust,“ þetta er hluti af grein sem Ólafur Þ. Kristjánsson, prófessor í stjórnmálum, skrifaði í morgun. Miðjan birtir greinina hér:

„Könnun Gallup sem birt var í gær sýnir glögglega að í núverandi kosningakerfi er jafnt vægi atkvæða eftir flokkum ekki tryggt, en það hefur verið skýrt markmið stjórnarskrár og kosningalaga frá 1987. Frá 1987-2009 tókst að jafna vægi atkvæða eftir flokkum. Fjöldi þingmanna hvers flokks var í samræmi við atkvæðamagn á landsvísu. En 2013, 2016 og 2017 fékk einn flokkur (B eða D) í hvert skipti aukamann, þ.e. einum þingmanni meira en honum bar væri atkvæðavægi jafnt eftir flokkum.

Í könnun Gallup er sýnd skipting 54 kjördæmasæta og 9 jöfnunarsæta milli flokka. Samkvæmt könnuninni fá átta flokkar amk. þau 5% atkvæða sem þarf til að flokkur fái jöfnunarsæti. Flokkur fólksins fær 4,7% og einn kjördæmakjörinn þingmann, en enga jöfnunarmenn. Atkvæði flokksins falla því dauð þegar jöfnunarsætum er úthlutað (en 4,7% tryggðu flokknum þrjá þingmenn ef enginn væri þröskuldurinn). Þrátt fyrir þessi dauðu atkvæði dugar fjöldi jöfnunarsæta ekki til að jafna milli hinna flokkanna. Sjálfstæðisflokkur fengi einn aukamann – hann fær 17 kjördæmakjörna þingmenn en ætti að fá 16 þingmenn alls – ef rétt væri skipt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Misvægi atkvæða eftir flokkum myndi enn aukast ef Flokkur fólksins hefði fengið 0,3% fleiri atkvæði. Þá ætti hann rétt á jöfnunarsætum. Slík niðurstaða þýddi að Sjálfstæðisflokkur fengi tvo aukamenn (ætti að fá 15 alls) og Framsóknarflokkur einn. Þrír þingmenn lentu hjá „röngum“ flokki miðað við jafnt atkvæðavægi eftir flokkum.

Frá 1934-1999 voru flest smáatriði kosningakerfisins geirnegld í stjórnarskrá. Það gerði erfiðara að breyta kerfinu.

Þetta var lagað í stjórnarskrárbreytingu 1999. Nú eru einungis nokkur lykilatriði kosningakerfis bundin í stjórnarskrá (m.a. 5% þröskuldurinn). Öllu öðru má breyta með breytingu á kosningalögum, m.a. fjölda kjördæmasæta og jöfnunarsæta. Þetta átti að auðvelda lagfæringar á kosningakerfinu.

Með því að fjölga jöfnunarsætum í kosningalögum er auðvelt að tryggja jafnt vægi atkvæða milli flokka sem fá amk. 5% atkvæða á landsvísu. Jöfnunarsætum var fækkað í kosningalögum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1999. Menn töldu þá að níu jöfnunarsæti dygðu til að jafna vægið – og þau gerðu það 2003, 2007 og 2009. En sú varð ekki raunin með fjölgun flokka 2013, 2016 og 2017. Samt gerði Alþingi ekkert – nýtti ekki rétt sinn til að laga þetta með því að breyta kosningalögum. Miðað við Gallup-könnunina myndi sagan endurtaka sig 2021. Og 0,3% aukning hjá Flokki fólksins miðað við könnunina myndi ekki leiða af sér einn aukamann – heldur þrjá!

Það er Alþingi til skammar að hafa ekki brugðist við og fjölgað jöfnunarsætum strax eftir kosningarnar 2013. Það bítur höfuðið af skömminni ef það samþykkir ekki breytingar á kosningalögum fyrir kosningarnar í haust.

Ps. Það er reyndar líka hægt að jafna atkvæðavægi eftir búsetu nánast alveg með einfaldri breytingu á kosningalögum – ef meirihluti þingsins vill. Það hefur hins vegar verið umdeilt, en nánast allir segist vilja jafnt atkvæðavægi eftir flokkum …“

Hér má sjá frétt RÚV um könnunina.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: