- Advertisement -

Nú boðar Bjarni gagnsæi

Muni ég rétt er Bjarni Ben sá stjórnmálamaður sem er tregastur til að vilja gagnsæi. Þetta viðtal við hann á ruv.is er mjög merkilegt. Eiginlega á skjön við veruleikann.

Frétt RÚV er svona:

Eftirliti með hagsmunagæslu og því hvort verið sé að beita óeðlilegum þrýstingi er best sinnt með því að auka gagnsæi, segir fjármálaráðherra. Embættismenn hafi mikil völd og þurfi að vita að sé þeim misbeitt geti það haft afleiðingar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Stundina í vikunni að þörf væri á að setja lög þar sem opinberum starfsmönnum og embættismönnum væri veitt vernd fyrir málsóknum, þar sem einkafyrirtæki ráðist gegn þeim persónulega. Tilefnið er kæra Samherja í apríl 2019 gegn fimm starfsmönnum Seðlabankans, vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn gjaldeyriseftirlits bankans á hendur Samherja. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í vikunni að til greina kæmi að setja lög sem verndi embættismenn gegn slíkum málsóknum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þetta mál margslungið, en fullt tilefni til að skoða það. „Embættismenn með mikil völd verða auðvitað að vita það að ef þeim er misbeitt geti það haft afleiðingar, alveg með nákvæmlega sama hætti og annars staðar í samfélaginu ef menn misbeita valdi sínu eða stöðu sinni þá geti það haft afleiðingar. Þá eru menn sóttir til saka, ákærðir og jafnvel fangelsaðir. Þannig að þetta er dáldið margslungið mál.“

Inntur eftir viðbrögðum við orðum Seðlabankastjóra, um að Íslandi sé að stórum hluta stjórnað af hagsmunahópum, segir Bjarni að margt hafi breyst frá bankahruninu og nú séu til dæmis fyrirtækin í kauphöllinni að meirihluta komin í eigu lífeyrissjóðanna. Í tíð hans sem forsætisráðherra hafi verið kortlagt hvaða áhrif það geti haft á ákvarðanatöku í samfélaginu og hvaða þjóðhagslega áhætta fylgi þessari miklu breytingu á eignarhaldi. Það reynist þó líklega best að fylgjast með hagsmunagæslu með því að auka gagnsæi. „Það eru nefnd samtök atvinnurekenda og launþegahreyfingin og síðan eru nefndir hér ríkir einstaklingar og allt það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera á þessu kjörtímabili hefur verið til að auka gagnsæi, meðal annars um hagsmunaverði, hvernig þeir eiga að reka erindi gagnvart stjórnkerfinu. Ég held að gagnsæi í samfélagi eins og okkar sé í raun og veru vopnið sem við getum beitt gegn því að einhvers staðar sé verið að beita óeðlilegum þrýstingi,“ segir Bjarni Benediktsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: