- Advertisement -

Segja skuldir borgarinnar vaxa hratt þrátt fyrir stórauknar tekjur

„Heildarskuldir Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið hærri en nú eru þær komnar í 386 milljarða króna en voru á síðasta rekstrarári 345 milljarðar. Skuldir samstæðu borgarinnar jukust þannig um 41 milljarð króna á síðasta ári, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði. Þetta samsvarar 112 milljónum á degi hverjum. Alla daga ársins,“ segir Eyþór og bætir við: „Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda sex ár og hefur hann nú nær tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta er bara eitt dæmi um það hversu slæm og alvarleg staðan er hjá Reykjavíkurborg en ársreikningurinn sýnir glöggt að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka kostar sitt.“ 

Þetta kemur fram í tilkynningu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar segist Eyþór að ekki sjá fyrir endann á skuldasöfnun borgarinnar.

„Enn er bætt í skuldsetninguna og engin tilraun gerð til að ná jafnvægi í rekstri.

Á sama tíma og fyrirtækin í borginni eru í vanda hefur borgin stækkað báknið gríðarlega enda eru tekin lán fyrir rekstri borgarinnar og fjárfestingum,“ segir Eyþór.

Eyþór segir vanda borgarinnar fyrst og fremst útgjaldavanda en ekki tekjuvanda.

 „Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hafa allir helstu tekjuliðir hennar hækkað um því sem nemur heilum sex milljörðum á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er því fyrst og fremst útgjaldavandi en því miður sér ekki fyrir endann á honum í áætlunum borgarstjóra,“ segir Eyþór.

„Vandinn er sá að meirihlutaflokkarnir stuðluðu að skuldasöfnun borgarinnar í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar en hirtu ekki um að hagræða þrátt fyrir fyrirheit um annað í meirihlutasáttmálanum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu ítrekað að benda á þá staðreynd þegar borgin var í miklum færum til þess að greiða niður skuldir en á það var ekki hlustað,“ segir Eyþór.  

Þá bendir Eyþór á að réttast væri að snúa vörn í sókn með fjölgun hagstæðra lóða, sölu á ónauðsynlegum eignum og nútímavæðingu rekstrar borgarinnar.

„Við verðum að sýna ábyrgð og snúa vörn í sókn. Við viljum í þeim efnum fjölga hagstæðum lóðum í borgarlandinu, selja ónauðsynlegar eignir eins og Malbikunarstöðina Höfða og nútímavæða reksturinn. Það er hægt ná jafnvægi í rekstri Reykjavíkurborgar með slíkum viðsnúningi sem mun þá jafnframt skila sér til bæði fyrirtækja og heimila,“ segir Eyþór í tilkynningunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: