Foxillur í framboði
„Fólk spyr mig nú á förnum vegi af hverju ég vilji í pólitík. Þetta er góð spurning og ég hef velt fyrir mér einhverju skynsamlegu leiðinlegu, hefðbundnu, svari. En á endanum verð ég að vera hreinskilinn. Ég gef kost á mér af því ég er bálreiður. Það sýður á mér,“ skrifar Glúmur Baldvinsson sem hefur gengið til liðs við Guðmund Franklín Jónsson og flokkinn hans, Frjálsa lýðræðisflokkinn.
„Hvernig stendur á því að fámennt, forríkt, samfélag hér útí ballarhafi geti ekki verið fyrirmynd annarra og verið kennslubókardæmi um jöfnuð, jafnrétti og bræðralag. Af hverju þessi misskipting auðs? Af hverju klíkuskapur? Af hverju spilling og ekki af hverju heldur af hverju kjósum við hana yfir okkur trekk í trekk? Af hverju er níðst á hinum minni máttar? Af hverju eru þeir sem glíma við vonda geðheilsu málaðir útí horn? Af hverju er Ísland ekki fyrirmyndarsamfélagið? Ég er bálreiður. Það er ástæðan og ég ætla aldrei að láta það spyrjast út um mig að hafa þó ekki alla vega reynt að gera eitthvað í málunum. Þetta er hið hreinskipta svar,“ skrifar Glúmur.