Enga stoð er að finna fyrir slíkri aukafjárveitingu í samþykktum og engin þeirra beiðna kom fyrir bæjarráð.
Um 80% af heildargreiðslunum rann til Sjálfstæðisflokksins.
„Fullnaðarsigur! Kópavogsbær mun alfarið hætta að kaupa auglýsingar í málgögnum stjórnmálaflokka eftir pönkið mitt,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
„Þetta er farsæll lokahnykkur á sögu sem hófst í desember, þegar ég kallaði eftir upplýsingum um þær reglur sem gilda um auglýsingakaup bæjarins í flokksmiðlum. Í ljós kom að viðmið um hámarksupphæð voru samþykkt á lokuðum fundi fyrir tíu árum síðan, þau voru þó hvergi skráð í opinberum gögnum og nýjum bæjarfulltrúum hefur ekki verið grein fyrir þessum útgáfustyrkjum. Þetta er fyrirkomulag sem býður upp á misnotkun á almannafé – enda kom á daginn að flokkurinn sem er við stjórn hefur fengið langhæstu styrkina, og raunar langt umfram samþykkt viðmið,“ skrifar hún á Facebook.
„Fyrirspurnin mín leiddi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki aðeins eini flokkurinn sem sótti sér auglýsingafé frá almenningi á hverju einasta ári, heldur sótti hann sér jafnframt tvívegis meira fjármagn en reglurnar heimila! Um 80% af heildargreiðslunum rann til Sjálfstæðisflokksins á tímabilinu 2015-2020, eða 1.150.000 kr af 1.450.000 kr. Það er 250.000 krónum meira en þau hefðu samkvæmt viðmiði átt að geta fengið á sex ára tímabili. Enga stoð er að finna fyrir slíkri aukafjárveitingu í samþykktum og engin þeirra beiðna kom fyrir bæjarráð.
Eftir að í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið greitt umfram samþykkt hámarksviðmið tók bæjarráð ákvörðun um að stöðva kaup á auglýsingum í flokksmiðlum þar til sátt yrði náð um fyrirkomulagið. Það gerðist loks í dag, þegar bæjarstjórn Kópavogs ákvað að hætta alfarið að kaupa auglýsingar í útgáfum á vegum stjórnmálaflokka.
Við þessu er aðeins eitt að segja: Lifi pönkið!“