- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn svíkur grasrótina

Karlremba er innbyggð í hryggjasúlu flokksins.

Gunnar Smári skrifar:

Það er nú farið að renna upp fyrir fólki nærri kjarna Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn hefur fyrir löngu svikið alþýðufylgi sitt fyrir 0,1% hinna ríkustu. Sem almannasamtök var Sjálfstæðisflokkurinn byggður utan um hagsmuni smákaupmanna, smáútgerðarmanna, iðnaðarmanna og einyrkja og alls þess alþýðufólks sem þráði að vinna sig upp til sjálfstæðis og meira efnahagslegs öryggis með því að hefja eigin rekstur. Þetta var ekki megintilgangur flokksins eða forystunnar að sinna þessu fólki, megintilgangur Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið að þjóna hinum ríku, en í kringum hagsmuni þessa alþýðufylgis byggðust almannasamtökin upp, sem urðu leið hagsmuna hinna ríkustu inn í stjórnmál byggð á almennum kosningarétti. Í hverfafélögum voru iðnaðarmenn, leigubílstjórar og sjoppueigendur áberandi og í Sjálftæðisflokksfélögum úti á landi trillukarla, smábátaútgerðarmenn, bændur, gröfumenn, menn sem áttu netaverkstæði, smiðju o.s.frfv.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég ætla ekki að afsaka að hér eru bara karlar nefndir til sögunnar, það er vandi Sjálfstæðisflokksins, karlremba er innbyggð í hryggjasúlu flokksins. Í dag á flokkurinn í stökustu vandræðum með að byggja upp framboðslista innan úr vilja grasrótarinnar sem ekki auglýsir þennan taumlausa kynjahalla.

Svik forystunnar við grasrótina hefur drepið niður allt starf innan flokksins.

En hvað um það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið þessa grasrót sína. Flokkurinn styður kvótakerfi sem þurrkar út útgerð smærri báta og smærri útgerðir. Hann styður samþjöppun í verslun svo nú eru smákaupmenn orðnir svo fátíðir að ekki er rætt við þá á öðrum vettvangi en Landanum. Flokkurinn styður athafnafrelsi og skattleysi hinna allra ríkustu en hvolfir yfir smærri atvinnurekendur og einyrkja skattahækkunum og kröfum um skrifræði, sem er aldrei neytendavörn heldur fyrst og fremst samkeppnistakmarkandi hömlur til að verja hagsmuni hinna stóru.

Svik forystu Sjálfstæðisflokksins við þessa grasrót hefur drepið niður allt starf innan flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem var síðasti flokkurinn sem kalla mætti almannasamtök eftir að Framsóknarflokkurinn sveik sína grasrót innan samvinnuhreyfingarinnar og Samfylkingin/VG og forverarar þessara flokka klufu sig frá grasrót verkalýðshreyfingarinnar, er í dag sambærilegt fyrirbrigði og hinir flokkarnir; flokksforysta lost in space. Munurinn er hins vegar sá að hagsmunasamtök hinna ríku keyra Sjálfstæðisflokkinn áfram sem hluta af vopnabúri sínu á meðan flestir hinna flokkanna eru lítið meira en klúbbur atvinnustjórnmálafólks með sameiginlega hagsmuni af endurkjöri.

Grein Vilhjálms er um margt með sambærilega greiningu á vanda Sjálfstæðisflokksins og þess atvinnulífs sem hann hefur byggt upp og varið og í þessari grein sem ég setti á Vísi fyrir rúmum mánuði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: