Sigurjón Þórðarson skrifar:
Nú hefur Kringlvarpið í Færeyjum sýnt seinni hluta heimildarmyndar um starfsemi Samherja í Færeyjum. Í Færeyjum hafa greinilega verið ástundaðir sömu glæpsamlegu starfshættirnir og í Namibíu og Íslandi, þ.e. að losa hagnað í gegnum skúffufélög í skattaskjólum. Starfsemi Samherja í Færeyjum, er rekin að stórum hluta í gegnum færeyska fyrirtækið Framherja. Þeir sem veita Framherja forstöðu virðast vita lítið sem ekkert um hvað fer fram í fyritækinu, sem þeir leppa.
Ég á bágt með að sjá að færeyska réttarvörslukerfið sem er samtvinnað því danska muni heykjast á að taka með alvöru á málum Samherja.
Færeyingar hafa sýnt Íslendingum hvað eftir annað mikinn samhug og stuðning í gegnum lýðveldissöguna, þegar alvarleg áföll hafa dunið á Íslendingum. Það átti við þegar snjóflóðin féllu á byggðirnar á Vestfjörðum og í fjármálahruninu. Íslendingar standa í þakkarskuld við Færeyinga.
Íslenska ríkisstjórnin ætti því að bjóða fram alla þá aðstoð að fyrra bragði, til að upplýsa um vafasama starfshætti alþjóðlegs fyrirtækis með höfuðstöðvar á Íslandi.